Fara í efni

Þverfaglegt verkefni gengur framar vonum

Nemendur MÁ í kvikmyndaveri skólans.
Nemendur MÁ í kvikmyndaveri skólans.

Fyrsta árs nemendur í Menntaskólanum á Ásbrú (MÁ) fengu á dögunum að spreyta sig á þverfaglegu verkefni í ensku og margmiðlun. Um er að ræða áfangana ENSK2TG05, þar sem áhersla er lögð á að nemendur afli sér þekkingar á fjölbreyttri menningu og MARG1GA05, þar sem nemendur læra að taka upp myndbönd, klippa þau til og vinna með ýmis konar brögðum.

Í ensku fengu nemendur þau fyrirmæli að velja sér svartan brautryðjanda frá Bandaríkjunum til að fjalla um í myndbandi sem þau myndu síðan bregða sjálf fyrir í og vinna áfram í margmiðlun.

Unnið var gaumgæfilega að upplýsingaöflun og myndbandið síðan undirbúið með handriti og stífum æfingum í enskutíma undir leiðsögn Geirs Finnssonar, enskukennara MÁ. Að því loknu tók Ingibjörg Lilja Guðmundsdóttir, margmiðlunarkennari MÁ, á móti nemendum og hjálpaði þeim að taka sjálf sig upp í svokallaðari „green screen“ stofu skólans. Því næst var nemendum kennt að klippa myndbandið sitt til og nota ýmis konar brögð svo líkja mætti afurðinni við alvöru fréttainnslag.

Að sögn kennara og nemenda gekk samstarfsverkefnið framar vonum og verða án efa fleiri slík í bígerðinni á komandi misserum.