Fara í efni

Sigurður Bjarni nýr fjármálastjóri Keilis

Sigurður Bjarni Hafþórsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Fjármálastjóri veitir fjármálasviði forstöðu og tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn.

Sigurður Bjarni hefur starfað hjá Keili síðan í mars 2021 sem forstöðumaður Heilsuakademíu og síðar sem verkefnastjóri viðskiptaþróunar. Hann tekur við stöðu fjármálastjóra af Idu Jensdóttur og hefur þegar hafið störf.

Sigurður Bjarni er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri þar sem hann útskrifaðist árið 1998 með áherslu á stjórnun. Hann hefur mikla reynslu á sviði fjármála með yfir 20 ára reynslu við störf á fjármálamarkaði sem viðskipta- og vörustjóri fyrirtækja ásamt því að hafa gengt stöðu forstöðumanns vörustjórnunar, áhættumats og forvarna fyrirtækja hjá VÍS.

Sigurður Bjarni starfaði fyrir þann tíma við verðbréfamiðlun hjá Kviku banka og við verðbréfamiðlun og eignastýringu hjá Íslenskum verðbréfum. Hann starfaði einnig sem deildarstjóri hóptíma og einkaþjálfunar hjá Hreyfingu heilsurækt ásamt því að hafa starfað sem leiðbeinandi í hóptímakennslu í rúmlega 25 ár.