Fara í efni

Skólar Keilis sameina krafta sína

Nemendur kynna fyrir fulltrúum Vinnuverndarskólans
Nemendur kynna fyrir fulltrúum Vinnuverndarskólans

Nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð eru þessa dagana að hefjast handa við lokaverkefni í tölvuleikjagerðaráfanga annarinnar. Verkefnið miðar að því að veita nemendum þjálfun í því að vinna verk fyrir viðskiptavin og er kúnninn að þessu sinni Vinnuverndarskóli Íslands.

Verkefnið felst í því að hanna og framleiða leiki sem kenna ungmennum í vinnuskólum um öryggisbúnað, reglur og vinnuvernd í mismunandi störfum og aðstæðum.

Verkefnið hófst á kynningu á vinnuvernd frá kennurum Vinnuverndarskólans svo hönnuðirnir væru vel upplýstir um viðfangsefni leikjanna. Nemendur vinna saman í þriggja til fjögurra manna hópum og munu í ferlinu kynna hugmyndir sínar fyrir fulltrúum Vinnuverndarskólans ásamt því að rýna í vinnuferli eftir leiðbeiningum kennara sinna.  

Dómnefnd Vinnuverndarskólans mun svo velja bestu leikina sem hljóta verðlaun frá tryggingafyrirtækinu VÍS og verða notaðir sem kennsluefni í námskeiði sem er í þróun hjá Vinnuverndarskóla Íslands og VÍS fyrir ungmenni í vinnuskóla Grundafjarðarbæjar.

Nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð hafa áður spreytt sig á leikjagerð fyrir viðskiptavin þegar þeir hönnuðu tölvuleiki fyrir yngstu farþega á leið um Keflavíkurflugvöll í samstarfsverkefni við Isavia vorið 2020.

Afeinangrun kennslustofunnar er mikilvægur liður í námi við Menntaskólann. Metnaður er lagður í að setja upp áhugavekjandi, raunhæf verkefni eins og kostur gefst á öllum námsferlinum. Nemendur sérhæfa sig í tölvuleikjagerð og fá einstakt tækifæri til þess að vinna verkefni með fyrirtækjum í gegnum slík samstarfsverkefni.