Fara í efni

Rúmlega 4500 nemendur útskrifaðir úr Keili

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 177 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 10. júní. Athöfnin að sinni var tvískipt sökum fjölda og hafa nú 4517 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar.

Í athöfnunum voru útskrifaðir 76 nemendur af Háskólabrú, 11 nemendur úr fagháskólanámi í leikskólafræðum, 30 ÍAK einkaþjálfarar, 16 ÍAK styrktarþjálfarar, 12 nemendur úr Adventure Guide Certificate og 32 atvinnuflugmenn.

Fríða Dís Guðmundsdóttir og Soffía Björg Óðinsdóttir hófu athafnir með frábæru tónlistaratriði þar sem þær spiluðu á gítar og sungu fyrir viðstadda. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og leiddi báðar athafnir. Þá hélt Haddý Anna Hafsteinsdóttir verkefnastjóri Heilsuakademíu hvatningarræðu til útskriftarnemenda fyrir hönd starfsfólks Keilis.

Háskólabrú brautskráði samtals 76 nemendur, 63 nemendur af Háskólabrú í fjarnámi og 13 af Háskólabrú í staðnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Birna Rós Gísladóttir með 9,73 í meðaleinkunn og fékk hún gjafabréf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hlaut Kristjana Vilborg Þorvaldsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju. Ásgerður Ósk Hilmarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.

11 nemendur útskrifuðust úr fagháskólanámi í leikskólafræðum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningaskjöl ásamt Heiðrúnu Scheving, verkefnastjóra fagháskólanámsins. Dúx fagháskólanáms var Guðríður Sæmundsdóttir og fékk hún gjöf frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hélt Linda Hlín Heiðarsdóttir ræðu fyrir hönd útskriftarnema úr fagháskólanámi.

Flugakademía Íslands útskrifaði 32 atvinnuflugmenn. Óskar Pétur Sævarsson, nýráðinn skólastjóri Flugakademíu Íslands flutti ávarp og veitti viðurkenningar ásamt Davíð Brá Unnarssyni, fráfarandi skólastjóra og núverandi yfirkennara bóklegrar kennslu Flugakademíunnar. Anthony Stefán Martinsson hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugnámi með 9,48 í meðaleinkunn og hlaut hann gjöf frá Icelandair ásamt Play í verðlaun. Ishmael Ibn Ibrahim hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Flugakademíu Íslands.

Flugakademía Íslands er eini skóli landsins sem býður upp atvinnuflugnám og er skólinn einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndunum. Lögð er áhersla á nútímalega kennsluhætti og eru kennsluvélar skólans þær nýjustu og tæknivæddustu á landinu.

Heilsuakademía Keilis útskrifaði alls 58 nemendur, 30 ÍAK einkaþjálfara, 16 ÍAK styrktarþjálfara og 11 nemendur úr Advendure Guide Certificate. Elvar Smári Sævarsson forstöðumaður Heilsuakademíunnar flutti ávarp og afhenti viðurkenningar ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra ÍAK náms og Ragnari Þór Þrastarsyni, verkefnastjóra Adventure Guide Certificate náms. Hákon Aðalsteinsson hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema úr Advendure Guide Certificate náminu og Elva Björg Jónsdóttir hélt ræðu fyrir hönd ÍAK einka- og styrktarþjálfara.

Guðrún Ýr Sigurbjörnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með meðaleinkunn upp á 9,88 og Guðný Petrína Þórðardóttir var verðlaunuð fyrir bestan námsárangur í ÍAK styrktarþjálfun með meðaleinkunnina 9,87 og hlutu þær báðar gjöf frá Hreysti í verðlaun. Í Adventure Guide Certificate náminu var það Lael Elizabeth Smith Cashen sem hlaut hæstu meðaleinkunn, 8,69, og fékk hún gjöf frá Keili í verðlaun.

Heilsuakademía Keilis býður uppá fjölbreytt nám tengt heilsu og heilsueflingu. Boðið hefur verið upp á nám í ÍAK einkaþjálfun allt frá stofnun Keilis árið 2007 og hefur námið hlotið mikilla vinsælda frá upphafi og þykir námið það ítarlegasta á sínu sviði á Íslandi. ÍAK styrktarþjálfun hefur verið í boði frá árinu 2015 og hefur það náð að festa sig í sessi sem valmöguleiki fyrir þá sem hafa áhuga fyrir þjálfun innan íþróttageirans. Að auki við ÍAK einka- og styrktarþjálfun býður Heilsuakademía Keilis uppá Adventure Guide Certificate nám í samstarfi við Thompsons River University, fótaaðgerðafræði, stök vinnuverndarnámskeið ásamt undirbúningsnámskeiði fyrir inntökupróf læknadeildar Háskóla Íslands.