Fara í efni

Samstarf fræðsluaðila um raungreinabúðir á Suðurnesjum

Mynd frá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði
Mynd frá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði

Vendinámssetur Keilis kemur að þróun raungreinabúða fyrir ungt fólk í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Þekkingarsetrið í Sandgerði og GeoCamp Iceland.

Þekkingarsetrið hlaut á síðasta ári fjármagn úr ríkissjóði, í gegnum samning við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, til að vinna að eflingu þekkingarstarfsemi á Suðurnesjum og þá sérstaklega eflingu menntunar og áhuga barna og ungmenna á sviði náttúruvísinda. Hluta þess fjármagns var varið í áframhaldandi þróun raungreinabúðanna á Reykjanesi og er stefnt að prufukeyrslu þeirra fyrir lítinn hóp nemenda sem hafa lokið 9. bekk næstkomandi sumar.

Þá verður einnig boðið upp á sumarnámskeið fyrir náttúrufræðikennara í grunn- og framhaldsskólum í ágúst. Verkefnið er unnið í samstarfi Vendinámsseturs Keilis og Þekkingarsetursins, en það hlaut nýverið verkefnastyrk frá SEF – Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara.

Nánari upplýsingar um raungreinabúðirnar á Suðurnesjum, ásamt þeim námskeiðum sem verða í boði í sumar, verða aðgengilegar þegar nær dregur.