Fara í efni

Ný þjónusta við nemendur Háskólabrúar og MÁ

Á dögunum var undirritaður þjónustusamningur á milli Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs og Bókasafns Reykjanesbæjar, um sérfræðiþjónustu á sviði bókasafns- og upplýsingafræða ásamt aðgangi að safnkosti og þjónustu Bókasafns Reykjanesbæjar fyrir nemendur á brautum Háskólabrúar og Menntaskólans á Ásbrú. Markmið samningsins er að auka þjónustu við nemendur, efla upplýsingalæsi nemenda og bjóða upp á skilvirka þjónustu með gagnvirkum hætti.

Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, og Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, undirrituðu samninginn að viðstöddum Skúla Frey Brynjólfssyni náms- og starfsráðgjafa og áfangastjóra MÁ, Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar, ásamt bókasafns og upplýsingafræðingunum Guðnýju Bjarnadóttur og Þóreyju Ösp Gunnarsdóttur.

Nemendur Háskólabrúar og Menntaskólans á Ásbrú geta því nú fengið frí lánþegaskírteini hjá Bókasafni Reykjanesbæjar sem veitir aðgang að safnkostum, aðgang að rafbókasafni, lesstofu og hópavinnuaðstöðu. Nemendur munu einnig hafa aðgang að mikilvægri upplýsingaþjónustu og heimildaleit á Bókasafni Reykjanesbæjar í gegnum síma, tölvupóst eða netspjall. Upplýsingafræðingar svara fyrirspurnum nemenda og aðstoða eins og hægt er á þjónustutíma. Fyrirspurnirnar geta verið einfaldar sem hægt er að leysa strax eða flóknari eins og við heimildaleitir.

,,Samningurinn er gríðarlega góð viðbót við þjónustu til okkar nemenda á Háskólabrú, bæði í staðnámi og ekki síður fyrir okkar nemendur í fjarnámi. Netspjallið getur nýst þeim til að mynda gríðarlega vel varðandi heimildaleit sem og rafbókasafnið. Það er von okkar að bæði nemendur og kennarar muni nýta sér þá frábæru þjónustu sem Bókasafn Reykjanesbæjar býður upp á ” segir Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar.

Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, sem áður starfaði innan raða Keilis á árunum 2008-2013 sem verkefnisstjóri útibús Bókasafns Reykjanesbæjar í Keili minnist tímans þar með hlýju og segir endurupphaf samstarfsins afar ánægjulegt. „Mikil ánægja er með undirritun nýs þjónustusamnings milli Bókasafns Reykjanesbæjar og Keilis. Samningurinn gildir í eitt ár og vonir standa til þess að nemendur Keilis nýti sér þjónustu og aðstöðu Bókasafns Reykjanesbæjar. Nemendum er alltaf velkomið að leita til okkar og fá persónulega þjónustu á staðnum eða með því að hafa samband við bókasafns- og upplýsingafræðing með því að skrifa okkur á Facebook, í tölvupósti eða á netspjallinu sem verður tekið í notkun á nýju ári.“