Fara í efni

Kennarastofan - Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi

Þorsteinn Sürmeli stýrir Kennslustofunni - Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi
Þorsteinn Sürmeli stýrir Kennslustofunni - Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis munu á næstunni framleiða röð nýrra hlaðvarpa undir heitinu „Kennarastofan“ en þar verður fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi. 

Sérstaklega verður litið á hvernig kennarar – og nemendur – hafa lagað námið að aðstæðum á tímum heimsfaraldurs og þá sérstaklega hvernig sú reynsla mun breyta kennsluháttum til frambúðar.

Þorsteinn er kennari í Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann hefur meðal annars tekið þátt í þróun vendináms, kennsluaðferð sem skólinn tók upp haustið 2012, sem snýr meðal annars að því hvernig megi styðjast við tæknina til að nýta sem best tímann sem nemendur og kennarar eiga saman í kennslustofunni. Það má gera með því að taka allt kennsluefni upp fyrir kennslustund og nýta tímann frekar í verkefnavinnu og leiðsagnarnám. 

Fyrsta hlaðvarp Kennarastofunnar - Heiða Björg Árnadóttir, Stapaskóla í Reykjanesbæ

Í fyrsta hlaðvarpi Kennarastofunnar kíkir Þorsteinn í heimsókn í hinn nýbyggða og glæsilega Stapaskóla í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ. Þar spjallar hann við Heiðu Björgu Árnadóttur, kennara í 7., 8. og 9. bekk um meðal annars teymiskennsluna sem kennarar í skólanum hafa verið að þróa og hvaða hlutverki byggingin, húsið sjálft, gegnir í þeirra starfi. 

Líttu við á Kennarastofunni