Fara í efni

Ríki og sveitarfélög leggja Keili til aukið hlutafé og stuðning

Samkvæmt tillögum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins mun ríkissjóður leggja til 190 milljónir í nýtt hlutafé til Keilis og eignast þannig meirihluta í skólanum. Er samkomulagið háð því að sveitarfélögin á Suðurnesjum leggi til sambærilega upphæð í formi hlutafjár til Keilis og verður hagaðilum kynnt sú ráðstöfun í næstu viku. 

Fimm ráðuneyti komu að tillögunum en unnið hefur verið að fjárhagslegri endurskipulagningu Keilis á síðustu mánuðum. Eru áður nefndar tillögur meðal þeirra úrræða sem stjórnendur hafa lagt áherslu á til þess að tryggja rekstrargrunn skólans til framtíðar. 

Samtals hafa rétt um fjögur þúsund nemendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007. Námsframboð skólans hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og skólinn átt stórann sess í að hækka menntunarstig á Suðurnesjum.