Fara í efni

Keilir 15 ára: Opið hús 2. apríl

Keilir hóf starfsemi vorið 2007 og fagnar því 15 ára afmæli í ár. Í tilefni þess verður opið hús í okkar frábæru aðstöðu í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú þann 2. apríl næstkomandi. Húsið verður opið gestum og gangandi á milli kl. 13.00 – 15.00 og verður fjölbreytt dagskrá, kynningar á námsframboði ásamt léttum veitingum á boðstólnum.

Flughermar Flugakademíunnar verða opnir, kynningarmeðferðir í fótaaðgerðafræði standa til boða og hægt verður að prófa tölvuleiki nemenda Menntaskólans á Ásbrú. Hlaðvarp og upptökuherbergi verða opin gestum, örkynningar á námsframboði verða og munu vélar Flugakademíunnar taka flug yfir Ásbrú svo eitthvað sé nefnt.

Nánari upplýsingar um dagskrá

Keilir hefur það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Mikil þróun hefur orðið á námsframboði Keilis síðustu ár og í dag eru fjórir skólar með fjölbreyttar námsleiðir starfandi undir Keili: Háskólabrú, Heilsuakademía, Flugakademía Íslands og Menntaskólinn á Ásbrú.

Frá árinu 2007 hafa rúmlega 4300 manns útskrifast af 20 brautum frá Keili og í dag eru núverandi nemendur á annað þúsund í skólum Keilis.

Námsframboð Keilis:

Háskólabrú: Staðnám I Fjarnám I Með vinnu I Með undirbúningi

Heilsuakademía Keilis: ÍAK einka- og styrktarþjálfun I Fótaaðgerðafræði I Adventure Guide Certificate I Vinnuverndarnámskeið I Undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf læknadeildar Hí

Menntaskólinn á Ásbrú: Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð I Fjarnámshlaðborð

Flugakademía Íslands: Atvinnuflugnám I Einkaflugnám I Námskeið fyrir flugmenn og flugkennara

Gerið ykkur glaðan dag með okkur, njótið veitinga og fáið að kynnast því frábæra starfi sem á hér stað alla daga. Starfsfólk og nemendur munu taka vel á móti þér og þínum og svara öllum ykkar spurningum.

Viðburður