Fara í efni

Hlaðvarp: Smiðja er lífsstíll!

Hjalta Halldórsson í Langholtsskóla er viðmælandi Kennarastofunnar
Hjalta Halldórsson í Langholtsskóla er viðmælandi Kennarastofunnar

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir hlaðvarpinu „Kennarastofan“ en þar er fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi. Að þessu sinni er spjallað við Hjalta Halldórsson í Langholtsskóla um Sprellifix á tímum skólatakmarkana.

Þegar ég var að móta hugmyndir mínar um Kennarastofuna og velta fyrir mér hugsanlegum viðmælendum, tók ég strax þá ákvörðun um að tala við einhvern af þeim kennurum sem sjá um Sprellifix, smiðjurnar í Langholtsskóla. Ég kynntist skipulagi þeirra fyrst á kynningu á fyrstu UTís ráðstefnunni á Sauðárkróki 2015 og hef alla tíð síðan hugsað reglulega til þess og reynt að einhverju leyti að máta mína kennslu að því.

Ég hefði getað sest niður með einhverjum af þeim frábæru Smiðjukennurum við skólann en ákvað að hafa samband við Hjalta, ekki síst vegna þess að hann hefur unnið með námsefnið á hinum ýmsu miðlum; hann hefur skrifað barnabækur sem eru byggðar á Íslendingasögum og heldur úti hlaðvarpi, ásamt Oddi Ingi smiðjukennara, um sama efni. Ég hafði sérstakan áhuga á að heyra frá Hjalta um það hvernig gekk að halda fyrirkomulagi Sprellifixins þegar takmarkanir í skólastarfi voru í gildi og hvort eitthvað muni taka breytingum þegar himnarnir opnast á ný.

HLUSTAÐU Á HLAÐVARPSÞÁTTINN HÉR

Kennarastofan - Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir röð nýrra hlaðvarpa undir heitinu „Kennarastofan“ en þar verður fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi. 

Sérstaklega er litið á hvernig kennarar – og nemendur – hafa lagað námið að aðstæðum á tímum heimsfaraldurs og þá sérstaklega hvernig sú reynsla mun breyta kennsluháttum til frambúðar.

Þorsteinn er kennari í Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann hefur meðal annars tekið þátt í þróun vendináms, kennsluaðferð sem skólinn tók upp haustið 2012, sem snýr meðal annars að því hvernig megi styðjast við tæknina til að nýta sem best tímann sem nemendur og kennarar eiga saman í kennslustofunni. Það má gera með því að taka allt kennsluefni upp fyrir kennslustund og nýta tímann frekar í verkefnavinnu og leiðsagnarnám. 

Kennarastofan er framleidd af Þorsteini Sürmeli með stuðningi frá Vendinámssetri Keilis og Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins.