Fara í efni

Hlaðvarp: Hreyfing og heilsa nemenda á tímum skólatakmarkana

Kennarastofan spjallar að þessu sinni við Unnar Vilhjálmsson, íþróttakennara í Menntaskólanum á Akur…
Kennarastofan spjallar að þessu sinni við Unnar Vilhjálmsson, íþróttakennara í Menntaskólanum á Akureyri.

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir hlaðvarpinu „Kennarastofan“ en þar er fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi.

Að þessu sinni er spjallað við Unnar Vilhjálmsson, íþróttakennara í Menntaskólanum á Akureyri um heilsu og lífsstíl nemenda, fyrir skólatakmarkanir, meðan á þeim stóð og hvernig námi í heilsu og lífsstíl verði hugsanlega háttað í framtíðinni.

Þessi þáttur kemur til ykkar ylvolgur af Norðurlandi en hann er sá annar í Akureyrarþríleiknum svokallaða. 

HLUSTAÐU Á HLAÐVARPSÞÁTTINN HÉR

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir röð nýrra hlaðvarpa undir heitinu „Kennarastofan“ en þar verður fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi. Sérstaklega er litið á hvernig kennarar – og nemendur – hafa lagað námið að aðstæðum á tímum heimsfaraldurs og þá sérstaklega hvernig sú reynsla mun breyta kennsluháttum til frambúðar.

Þorsteinn er kennari í Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann hefur meðal annars tekið þátt í þróun vendináms, kennsluaðferð sem skólinn tók upp haustið 2012, sem snýr meðal annars að því hvernig megi styðjast við tæknina til að nýta sem best tímann sem nemendur og kennarar eiga saman í kennslustofunni. Það má gera með því að taka allt kennsluefni upp fyrir kennslustund og nýta tímann frekar í verkefnavinnu og leiðsagnarnám. 

Hluti af BestEDU Erasmus+ verkefni Keilis

Vendinámssetur Keilis heldur utan um nýtt fjölþjóðlegt verkefni sem snýr að góðum starfsvenjum í evrópsku skólakerfi á tímum Covid. Verkefnið, sem er styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins, er til tveggja ára og er unnið í samstarfi átta skóla og fræðslustofnana í sex Evrópulöndum. 

Markmið verkefnisins - sem hefur fengið nafnið BestEDU - verður að draga saman þær breytingar sem hafa átt sér stað í skólum á undanförnum misserum, hvernig Covid hefur aðlagað skólastarf að breyttu námsumhverfi og hvernig snemtæk íhlutun og aðlögunarfærni hefur haft jákvæð áhrif á framvindu náms í evrópskum skólum.

Sérstaklega verður litið til reynslu kennara og nemenda á fjarnámi, auk þess hvernig námsgreinar og skólar sem hafa minni reynslu af innleiðingu fjarnáms eða vendináms í skólastarfi geta dregið lærdóm af skólahaldi á tímum Covid. Með því að draga saman raunverulegar reynslusögur verður leitast við að draga saman jákvæða þætti sem gætu nýst skólum í framtíðinni og þegar óviðbúin breytingarferli eiga sér stað. 

Þá munu samstarfsaðilar í verkefninu skoða hvort og hvernig hægt er að yfirfæra þessa reynslu yfir á greinar sem hefur verið erfiðara að mæta á þessum tímum svo sem fræðslu aldraðra, nám í heilsu- og líkamsrækt, mennun í afskekktum byggðum, verk- og iðnnám, svo eitthvað sé nefnt. 

Kennarastofan er framleidd af Þorsteini Sürmeli með stuðningi frá Vendinámssetri Keilis og Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins.