Fara í efni

Hlaðvarp: Evrópsk samstarfsverkefni með leikskólabörnum

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir hlaðvarpinu „Kennarastofan“ en þar er fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi.

Að þessu sinni er spjallað við Önnu Sofiu Wahlström. Hún hefur síðustu ár verið virk í evrópskum samstarfsverkefnum og á það bæði við Erasmus+ verkefni sem og eTwinning verkefni sem eru stofnuð og unnin á netinu. 

Anna Sofia starfar á tveimur leikskólum og tók Kennarastofan tal á henni í leikskólanum Holti, þar sem við spjölluðum um þátttöku hennar í alþjóðlegum verkefnum og hvernig þau hafa gengið á tímum heimsfaraldurs.

Anna Sofia var í fyrra tilnefnd til íslensku menntaverðlaunanna fyrir framúrskarandi kennslu og þróunarstarf í tengslum við alþjóðleg samstarfsverkefni.

Hlustaðu á hlaðvarpsþáttinn hér

Kennarastofan - Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir röð nýrra hlaðvarpa undir heitinu „Kennarastofan“ en þar verður fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi. 

Sérstaklega er litið á hvernig kennarar – og nemendur – hafa lagað námið að aðstæðum á tímum heimsfaraldurs og þá sérstaklega hvernig sú reynsla mun breyta kennsluháttum til frambúðar.

Þorsteinn er kennari í Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann hefur meðal annars tekið þátt í þróun vendináms, kennsluaðferð sem skólinn tók upp haustið 2012, sem snýr meðal annars að því hvernig megi styðjast við tæknina til að nýta sem best tímann sem nemendur og kennarar eiga saman í kennslustofunni. Það má gera með því að taka allt kennsluefni upp fyrir kennslustund og nýta tímann frekar í verkefnavinnu og leiðsagnarnám. 

Kennarastofan er framleidd af Þorsteini Sürmeli með stuðningi frá Vendinámssetri Keilis og Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins.