Fara í efni

Hlaðvarp: Blómið vex alltaf í átt að næringunni

Hilmar Friðjónsson, viðmælandi Kennarastofunnar
Hilmar Friðjónsson, viðmælandi Kennarastofunnar

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir hlaðvarpinu „Kennarastofan“ en þar er fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi.

Að þessu sinni er spjallað við Hilmar Friðjónsson, kennara við Verkmenntaskólann á Akureyri, sem Þorsteinn kynntist í námskeiðinu Framhaldsskólakennarinn á krossgötum sem Menntavísindasvið HÍ stóð fyrir.

Eldmóður Hilmars er augljós og metnaður hans smitandi. Ég vildi því setjast niður með honum og spjalla um hans nálgun og gildi í kennslu og reynslu hans af neyðarfjarkennslu á tímum heimsfaraldurs.

Hilmar fjallar einnig um mikilvægi þess að samskipti kennara við nemendur séu byggt á jákvæðni og að umhverfi kennarans sé hvetjandi og dynamískt. Það sé leiðin til að virkja kennarann og búa til gott og uppbyggjandi starfsumhverfi.

Hlustaðu á hlaðvarpsþáttinn hér

Kennarastofan - Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi

Þorsteinn Sürmeli og Vendinámssetur Keilis standa fyrir röð nýrra hlaðvarpa undir heitinu „Kennarastofan“ en þar verður fjallað um nám og kennslu í breyttum heimi. 

Sérstaklega er litið á hvernig kennarar – og nemendur – hafa lagað námið að aðstæðum á tímum heimsfaraldurs og þá sérstaklega hvernig sú reynsla mun breyta kennsluháttum til frambúðar.

Þorsteinn er kennari í Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann hefur meðal annars tekið þátt í þróun vendináms, kennsluaðferð sem skólinn tók upp haustið 2012, sem snýr meðal annars að því hvernig megi styðjast við tæknina til að nýta sem best tímann sem nemendur og kennarar eiga saman í kennslustofunni. Það má gera með því að taka allt kennsluefni upp fyrir kennslustund og nýta tímann frekar í verkefnavinnu og leiðsagnarnám. 

Kennarastofan er framleidd af Þorsteini Sürmeli með stuðningi frá Vendinámssetri Keilis og Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins.