Fara í efni

Keilir leiðir verkefni um góðar starfsvenjur í evrópskum skólum

Vendinámssetur Keilis heldur utan um nýtt fjölþjóðlegt verkefni sem snýr að góðum starfsvenjum í evrópsku skólakerfi á tímum Covid. Verkefnið, sem er styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins, er til tveggja ára og er unnið í samstarfi átta skóla og fræðslustofnana í sex Evrópulöndum. 

Markmið verkefnisins verður að draga saman þær breytingar sem hafa átt sér stað í skólum á undanförnum misserum, hvernig Covid hefur aðlagað skólastarf að breyttu námsumhverfi og hvernig snemtæk íhlutun og aðlögunarfærni hefur haft jákvæð áhrif á framvindu náms í evrópskum skólum.

Sérstaklega verður litið til reynslu kennara og nemenda á fjarnámi, auk þess hvernig námsgreinar og skólar sem hafa minni reynslu af innleiðingu fjarnáms eða vendináms í skólastarfi geta dregið lærdóm af skólahaldi á tímum Covid. Með því að draga saman raunverulegar reynslusögur verður leitast við að draga saman jákvæða þætti sem gætu nýst skólum í framtíðinni og þegar óviðbúin breytingarferli eiga sér stað. 

Þá munu samstarfsaðilar í verkefninu skoða hvort og hvernig hægt er að yfirfæra þessa reynslu yfir á greinar sem hefur verið erfiðara að mæta á þessum tímum svo sem fræðslu aldraðra, nám í heilsu- og líkamsrækt, mennun í afskekktum byggðum, verk- og iðnnám, svo eitthvað sé nefnt. 

 

Samstarfsaðilar verkefnisins

Þeir fræðsluaðilar sem taka þátt í verkefninu eiga það sammerkt að hafa aðlagað og innleitt nýjar kennsluaðferðir á undanförnum árum til að mæta breyttri þörf nemenda. Þá var litið til þess að samstarfsaðilarnir væru frá ólíkum sviðum og væru fulltrúar sem flestra skólastiga, svo sem grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum, ásamt starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu, verk- og iðnnámsgreinum. Þá hafa samstarfsaðilar einnig reynslu af menntun og fræðslu innflytjenda, minnihlutahópa, aldraðra og nemenda með sérþarfir. Þátttakendur eru:

  • Árskóli á Sauðárkróki (Ísland)
  • Fisktækniskóli Íslands
  • Háskólinn í Austur Finnlandi (University of Eastern Finland)
  • Háskólinn í Suður Danmörku (University College South Denmark)
  • Action Synergy í Grikklandi
  • Galileo starfsmenntastofnunin á Ítalíu
  • Slava Raškaj Educational Centre í Króatíu

 

Vendinámssetur Keilis 

Evrópuverkefnið er meðal fyrstu verkefna hins nýstofnaða Vendinámsseturs Keilis, en því er ætlað að vera miðstöð fyrir nýjungar í þróun námsefnis, námsskipan og kennsluaðferða. Í gegnum setrið mun Keilir vinna að því að efla vendinám ásamt því að stuðla að þekkingarmiðlun og innleiðingu nýrra kennsluaðferða í skólum.

Með vendinámssetrinu verður þannig til miðlæg þekkingarmiðstöð þar sem fræðsluefni verður gert aðgengilegt auk þess að veita öðrum ráðgjöf við innleiðingu vendináms eftir því sem þörf er á. Þá verður sett upp innan Keilis nýtt við hljóð- og myndbandsupptökuver með sérhæfðri aðstöðu til upptöku á hlaðvarpsþáttum. 

Verkefnið BestEDU er styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins. Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://ec.europa.eu/programmes/erasmus-plus/projects/eplus-project-details/#project/2020-1-IS01-KA226-VET-082796