Fara í efni

Góð aðsókn í nám á Háskólabrú

Þann 15.ágúst hófst nám á Háskólabrú á haustönn eftir sumarleyfi. Aðsókn í námið var afar góð en aukning var á umsóknum frá árinu áður. Rúmlega 100 nýnemar voru samþykktir í námið og stunda nú yfir 250 nemendur nám á Háskólabrú. Athyglisvert var að sjá að talsverð aukning (25%) var á umsækjendum frá árinu áður sem sækjast eftir námi í raunvísindum. Flestir þeirra setja stefnu á nám í heilbrigðisvísindum eða tæknifræði.  

Nám á Háskólabrú er ætlað fullorðnum námsmönnum sem vilja styrkja sig á vinnumarkaði eða eiga þann draum að skrá sig í háskólanám. Námsbrautir Háskólabrúar eru fjórar og vísa í svið innan Háskóla Íslands en námið er í samstarfi við háskólann og undir gæðaeftirliti hans. Nú hafa rúmlega 2500 einstaklingar lokið námi á Háskólabrú og kannanir sýna að 85% þeirra halda áfram í háskólanám. 

Nám á Háskólabrú hefst næst í janúar 2026 og opnað verður fyrir umsóknir 1.september 2025.