Fara í efni

Forsætisráðherra ávarpar starfsfólk á stefnumótunardegi Keilis

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Keili á ferð sinni um Reykjanesið.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Keili á ferð sinni um Reykjanesið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti Keili heim föstudaginn 5. mars síðastliðinn. Heimsóknin var hluti af ferð hennar um Reykjanesbæ þar sem hún heyrði hljóðið í sveitarstjórnarmönnum og heimsótti nokkra staði.

Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, tók á móti Katrínu ásamt Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sýndi þeim aðstöðu skólans og sagði frá því fjölbreytta námsframboði sem nemendur Keilis leggja stund á. Auk þess var farið yfir áherslur og framgang Menntanets Suðurnesja, sem Keilir á þátt í ásamt öðrum menntastofnunum á svæðinu.

Heimsókn Katrínar átti sér stað á sama tíma og hátt í fimmtíu kennarar og starfsfólk Keilis tóku þátt í stefnumótunarvinnu um hlutverk og tækifæri skólans á næstu misserum. Forsætisráðherra ávarpaði hópinn og ítrekaði þar meðal annars mikilvægi menntastofnana á umbrotatímum.