Fara í efni

Ferðaþjónustutengt nám hjá Keili

Þórir Erlingsson, aðjúnkt við Háskólann á Hólum og verkefnastjóri ferðaþjónustunáms hjá Keili
Þórir Erlingsson, aðjúnkt við Háskólann á Hólum og verkefnastjóri ferðaþjónustunáms hjá Keili

Þórir Erlingsson, aðjúnkt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, leiðir nýtt verkefni hjá Markaðs- og þróunarsviði Keilis sem tengist þróun á námsframboði tengt ferðaþjónustu. 

Fyrst um sinn verður unnið að uppsetningu og gerð fjölbreyttra námskeiða, með áherslu á úrræði fyrir atvinnulausa einstaklinga úr ferðaþjónustunni.

Tækifæri til að skerpa á færni og þekkingu

Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika ferðaþjónustu hérlendis og erlendis er ljóst að það eru mýmörg tækifæri sem tengjast menntun, endurmenntun og þjálfun starfsfólks í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

Á Íslandi, og þá sérstaklega á Reykjanesinu, er gott tækifæri til að nýta þá innviði, reynslu og þekkingu sem eru nú þegar til staðar, til að þróa fjölbreytt og spennandi ferðaþjónustutengt námsframboð í framtíðinni, til að styrkja stöðu heimafólks á vinnumarkaði, endurmennta aðila innan ferðaþjónustunnar á landinu öllu, sem og til að bjóða upp á áhugavert og einstakt alþjóðlegt nám fyrir erlenda skólahópa.

Reiknað er með að fyrsti hluti námskeiðanna hefjist í janúar 2021. Þau verða í boði bæði á ensku og íslensku, kennd í fjarnámi með reglulegum staðlotum í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Keilir hefur góða reynslu af því að þróa nám í ferðaþjónustu, en skólinn hefur frá árinu 2013 boðið upp á sérhæft leiðsögunám í ævintýraferðamennsku í samstarfi við kanadíska háskólann Thompson Rivers University. Þá hefur Keilir boðið upp á fjölda sumarnámskeiða fyrir fólk á öllum aldri í á undanförnum árum sem tengjast útivist og afþreyingarferðamennsku.

Alþjóðleg samstarfsverkefni um fræðslu í ferðaþjónustu

Þórir mun samhliða þessum verkefnum einnig koma að nýju Erasmus+ verkefni Keilis sem tengist þróun námskeiða í sjálfbæri og ábyrgri ferðaþjónustu, ásamt aðkomu að Vestnorrænu verkefni innan leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku sem snýr að fjarnámsáfanga í afþreyingarferðamennsku á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum. Það verkefni er styrkt af NATA - North Atlantic Tourism Association.

Þórir er vel til þess fallinn að leiða þessi verkefni. Hann er með meistaragráðu í International Hospitality and Tourism Management frá Háskólanum í Suður-Karolínu í Bandaríkjunum, tók þátt í þróun áfanga í sjálfbærni og ferðaþjónustu við Kennesaw State University í Atlanta og hefur kennt í ferðamáladeild Háskólans á Hólum frá árinu 2017. 

Nánari upplýsingar um námsframboðið og verkefnin verða aðgengilegar á heimasíðu Keilis í október.