Fara í efni

Fagháskólanám í leikskólafræði

Keilir og Háskóli Íslands bjóða nú í annað sinn upp á fagháskólanám í leikskólafræðum fyrir starfsfólk leikskóla á Suðurnesjum. Um er að ræða starfstengt og hagnýtt nám á háskólastigi. 

Námið er sett upp sem 60 ECTS einingar og skilgreint sem nám með vinnu og er áætlað að það taki tvö ár. Stefnt er að því að námið hefjist í byrjun september næstkomandi og fara umsóknir fram á vef Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur er til 12. júní.

Með fagháskólanáminu vilja samstarfsaðilar meðal annars stuðla að:

  • öflugu námi í leikskólafræðum á Suðurnesjum
  • eflingu menntunar innan leikskólanna á svæðinu
  • fleiri möguleikum starfsfólks leikskóla til starfsþróunar
  • því að sameina styrkleika formlegrar menntunar og þeirrar reynslu sem starfsfólk leikskóla býr yfir
  • samlegðaráhrifum sem verða til þegar Keilir, Háskóli Íslands, sveitarfélög og leikskólar á Suðurnesjum taka höndum saman.

Fyrirkomulag og nánari útfærsla

Um er að ræða hagnýtt, atvinnutengt nám á háskólastigi sem lýkur með veitingu sérstaks prófskírteinis. Námið veitir haldgóða þekkingu á starfi með börnum í leikskólum og hentar einkum þeim sem hafa starfað sem leiðbeinendur í leikskólum og hyggjast bæta við hæfni sína og/eða hefja leikskólakennaranám. Nemendur munu fá námseiningar metnar sæki þeir um áframhaldandi nám í leikskólafræðum við Háskóla Íslands.

Fyrra árið fer námið fram í Keili og verður skipulagt sem sveigjanlegt nám með starfi. Kennarar í leikskólakennarafræðum heimsækja nemendur í heimabyggð, í húsnæði Keilis þar sem þunginn af náminu fer fram. Nemendur fara í heimsóknir á vettvang og heimsækja einnig Menntavísindasvið Háskóla Íslands í Stakkahlíð, sem ber faglega ábyrgð á náminu.

Seinna árið verða nemendur hluti af leikskólakennaranemahópnum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, kennslan fer þá fram í húsnæði Menntvísindasviðs en einnig geta nemendur stundað námið í  fjarfundi frá Keili.

Kennslufræðileg nálgun mun byggja á virkri þátttöku nemenda, sköpun lærdómssamfélags, og sterkum tengslum fræða og fagvettvangs. Kennsluaðferðir verða fjölbreyttar og felast m.a. í vendinámi, einstaklings- og hópavinnu, vettvangsferðum og valdeflingu hvers nemanda.  

Markhópur

Námið er skipulagt sem brú yfir í háskólanám. Markhópur námsins eru leiðbeinendur sem starfa í leikskólum á Suðurnesjum. Stefnt er að því að fagháskólanám hefjist 1. september næstkomandi.

Umsókn og nánari upplýsingar

Umsókn um námið fer fram af heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fólk velur umsóknargáttina, stofnar aðgang fyrst, passar að velja grunnnám - og námið sjálft heitir „Hagnýt leikskólafræði - grunndiplóma, 60e“Umsækjendur þurfa að sækja rafrænt um á þeirri síðu og hengja við tilheyrandi fylgigögn. Síðar verður kallað eftir staðfestum afritum af prófskírteinum/námsferilsyfirlitum frá þeim sem uppfylla inntökuskilyrðin.

Kynningarfundur um námið verður haldinn í aðalbyggingu Keilis, þriðjudaginn 25. maí kl. 17. 

Nánari upplýsingar má nálgast á faghaskoli@keilir.net