Sindri Steingrímsson útskrifaðist vor 2023 af verk- og raunvísindadeild en hann stundaði námið í fjarnámi samhliða vinnu í tvö ár. Sindri er fæddur á Vopnafirði á því herrans ári 1969 og nefnir merka viðburði þess árs í því samhengi eins og Appollo 11- Örninn lendir á tunglinu, Woodstock, Sesame Street, Bítlarnir hljóðrita síðustu skífu sína Abbey Road, fyrsta stöðuga APRANET tengingin og efnahagsástandið afar bágborið samkvæmt skýrslu OECD og lætur fylgja með að það sé ekkert nýtt. Sindri er giftur Sharon Jeannine Kerr gæðastjóra og núverandi sérfræðingi í fluggeiranum hjá Icelandair. Saman eigi þau tvær dætur og komin séu tvö barnabörn. Sindri og Sharon búa á Álftanesi með nokkrum Cornish Rex kisum og helling af svönum á veturna að hans sögn.
Fjölbreytt reynsla
Sindri grínast með fyrrum reynslu sína og segir að eins og í kvæðinu „Afasögur” eftir Valgeir, Leif og Pétur í flutningi Hrekkjusvína, þá hafi hann gegnt hinum ýmsu störfum í gegnum tíðina, verið sjómaður, flugmaður og flugkennari, smiður, málari, tölvukarl og ýmislegt fleira en segir barnabörnin trúi þessu tæplega. Síðustu 25 árin hafi hann mest verið í flugtengdri starfsemi og áður en hann hóf nám hjá Keili var hann flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslu Íslands í áratug.
Aðstæður breyttust eftir alvarlegt slys
Þegar Sindri er spurður út í af hverju hann dreif sig í nám á Háskólabrú með alla hans reynslu segist hann vera af þeirri kynslóð sem lenti í endalausum verkföllum í grunnskóla og framhaldsskóla og gafst að lokum upp á hefðbundnu námi á Íslandi. Hélt til Ameríku og lauk þar atvinnuflugmanns- og flugkennaranámi og vann svo við það í nokkur ár. Eftir alvarlegt slys, og tekur fram að ekki um flugslys hafi verið að ræða, breyttust aðstæður og endaði hann í stjórnun flugapparata af ýmsu tagi s.s. flugskóla, millilandaflugfélags og þyrluþjónustu sem leiddu svo til stjórnunar flugrekstrar Landhelgisgæslunnar. Alltaf var stefna hans þó að ljúka framhaldsskólanámi og fara í háskólanám en lífið spretti úr spori og tíminn æddi áfram í allskonar skemmtilegum verkefnum. ,,Svo, fyrir um þremur árum, gafst tækifæri sem ég ákvað að grípa og hóf fljótlega eftir það vegferðina með Keili,“ segir Sindri.
Af hverju Háskólabrú?
Þegar Sindri er spurður af hverju hann valdi Háskólabrú þá stóð ekki á svörum: ,,Ég hafði heyrt mjög góða hluti um námið hjá Háskólabrú Keilis, bæði frá nemendum og kennurum sem starfað höfðu þar. Eftir að hafa einnig viðað að mér upplýsingum um námið í Háskólagrunni HR og Háskólagáttina hjá Bifröst, þótti mér Keilir álitlegastur. Svo er Háskólabrú líka miklu flottara nafn en „-gátt og -grunnur“.“
Fagfólk í hverju rúmi
Sindri segir að námið hafi staðist þær væntingar sem hann hafði og að sumu leyti gott betur. ,,Námið var krefjandi og enginn afsláttur gefinn af því að leggja á sig þá vinnu sem þarf til að þreskja megi góða uppskeru eftir erfiðan dag á akrinum,“ segir Sindri. Að sama skapi segir Sindri kennarana sem og aðra starfsmenn Keilis boðnir og búnir að leggja til það sem þurfti, leiðbeina og leysa úr vandamálum hvenær sem þau skutu upp kollinum. Hans upplifun er því að Keilir sé krefjandi, afslappaður, þægilegur og góður skóli, aðstaðan sé góð og andinn ljómandi fínn. Hann mælir því eindregið með náminu og segist geta talið ótal jákvæða hluti upp og einmitt þess vegna hefur dóttir hans ákveðið að skrá sig í námið.
,,Var lánsamur með samferðamenn í náminu“
Þegar Sindri er spurður að því hvað hafi staðið upp úr á námstímanum þá séu það þónokkrir hlutir en það sé helst og þekkingin og reynslan sem skapaðist með kynnum af öllu því frábæra fagfólki sem mannar stöður og þá helst lærimeistararnir. ,,Flestir lærimeistaranna eru nokkuð „Gíslalegir“ þó að það sé bara einn „G-man,“ segir Sindri kíminn og vísar þar í stærðfræðikennara á Háskólabrú. Annað starfsfólk Keilis gefur kennurunum ekkert eftir, þegar kemur að fagmennsku og því að hlúa að nemendum eins og kostur er. ,,Þegar stjórnunin er góð þá fylgir árangurinn jafnan eftir, en þessi mikilvægi þáttur, í öllu starfi, vill stundum gleymast í dagsins önn. Einnig voru þeir samferðamenn sem ég var svo lánssamur að kynnast á vegferðinni veglegur innblástur,“ segir Sindri. En það sem trónir þó á toppnum segir hann vera hóflegt stolt yfir því að hafa ráðist í þetta verkefni og klárað það, án þess að verða sér til of mikillar skammar.
Næstu skref
,,Menntun er máttur,“ segir Sindri og segist vera kominn af stað í háskólanámi og gerir ráð fyrir að vera þar a.m.k. næstu 3 árin. Jafnframt sé hann búinn að skrá sig í ökukennaranám hjá Endurmenntun HÍ svo það sé allt að gerast. Bætir svo kímnilega við: ,,Ætli maður endi ekki bara með fimm háskólapróf, eins og þjóðþekktur bensínafgreiðslukarl.“ Að lokum vill Sindri koma á framfæri þakklæti til þeirra sem voru honum samferða í þessari námsvegferð hjá Háskólabrú Keilis þá bæði starfsfólki og samnemendum.
Háskólabrú Keilis þakkar Sindra kærlega fyrir hlý orð í garð skólans og óskar honum velfarnaðar í áframhaldandi námi sem og öðrum framtíðarverkefnum.
Háskólabrú Keilis hefst næst í fjarnámi 4.janúar. Hægt er að stunda fjarnám til eins eða tveggja ára eða skipuleggja námið eftir því sem hentar hverjum og einum í samráði við námsráðgjafa. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Keilis.