Fara í efni

Fjölgun rafhleðslustöðva við Keili á Ásbrú

Keilir hefur um langt skeið haft hug á því að vinna að umhverfisvænum lausnum og tók þátt í átaki í samstarfi við Reyjanesbæ árið 2017 með uppsetningu á hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla við aðalhúsakynni Keilis við Grænásbraut. Á þeim tíma var unnið að því að hvetja almenning til þess að færa sig í meira mæli yfir í rafmagnsbíla og viðlíka stöðvar voru settar upp um allt land. Á þessum sex árum sem eru liðin eru aðstæður í þessum efnum talsvert breyttar og gríðarleg fjölgun rafbílaeigenda orðin staðreynd. Ein hleðslustöð við Keili hefur því ekki dugað til að þjónusta nemendur og starfsmenn. Keilir hefur í tæp 16 ár veitt nemendum sínum úrvals þjónustu í fjölbreyttum námsleiðum á framhaldsskólastigi og er nú á ný í samstarfi við Reykjanesbæ að opna ON rafhleðslustöð á bílastæði Keilis á Ásbrú. “Ef bara er litið til síðasta árs, þá hefur beiðnum um fjölgun rafhleðslustöðva við Keili rignt inn til okkar og við höfum séð aukningu þess efnis í hverjum mánuði. Við erum mjög ánægð með þetta samstarf, því við viljum ávallt bæta aðstöðu okkar fólks, bæði við nám og leik. Það hefur til dæmis alltaf verið einhver hluti í okkar nemendahópi sem keyrir til okkar á Ásbrú frá höfuðborginni, núna þurfa þau ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki í hleðslu þegar þau eru í húsi.” segir Nanna Kristjana framkvæmdastjóri Keilis um breytinguna á nemenda- og starfsmannaaðstöðu Keilis. Nýja stöðin getur hlaðið fjóra bíla í senn og verður opin allan sólarhringinn. Veður og vindar hafa tafið framkvæmdir sem annars hefði verið lokið, en ný áætlun gerir ráð fyrir verklokum innan tíðar.

Sjá einnig frétt um fjölgun rafhleðslustöðva í Reykjanesbæ á vefsíðu þeirra hér