Fara í efni

Hlutverk öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða

Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir hafa mikilvægu hlutverki að gegna innan hvers fyrirtækis. Eitt af þeirra mikilvægustu störfum er þátttaka í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem öllum vinnustöðum ber að hafa. Öryggistrúnaðarmaður sinnir vinnuvernd í samvinnu við öryggisvörð og fylgist með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við vinnuverndarlög. Öryggistrúnaðarmenn eru kjörnir af starfsmönnum en öryggisverðir eru atvinnurekandinn sjálfur eða fulltrúi/fulltrúar sem hann skipar í sinn stað. 

Samkvæmt reglugerð 920/2006 ber atvinnurekendum að sjá til þess að öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn hljóti viðeigandi fræðslu og þjálfun meðal annars með því að sækja námskeið um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem gera þeim kleift að sinna hlutverki sínu. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að fjárhagslegur ávinningur af öflugu vinuverndarstarfi er umtalsverður. Rannsókn á 300 fyrirtækjum í 16 löndum sýndi fram á að fjárfesting í vinnuvernd skilaði sér ríflega tvöfalt til baka í ábata fyrir fyrirtæki (Bräuning og Kohstall, 2012). Vandað vinnuverndarstarf skilar sér í bættu öryggi, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks, fækkun fjarvista vegna veikinda og dregur úr kostnaði vinnuveitenda. Því er til mikils að vinna.

Vinnuverndarskóli Íslands býður mánaðarlega upp á námskeið fyrir öryggisverði og öryggistrúnaðarmenn

Frekari upplýsingar og skráning