Menntastoðir

Menntastoðir er tilvalin námsleið fyrir þá sem vilja hefja nám á ný og ná sér í grunnfögin í framhaldsskóla. Námið er unnið í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Mími - símenntun, Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins og Keili. 

Markmið námsins er að stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til áframhaldandi náms og auðvelda þeim að takast á við ný verkefni. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Námið tekur um 6 mánuði (staðnám) eða 10 mánuði (dreifinám) og metur Keilir námið til 50 eininga. Munurinn á staðnámi og dreifinámi felst í því að staðnámið er dagskóli fimm daga vikunnar en dreifinámið er kvöld/helgarskóli með fjarnámssniði. 
 
Helstu námsgreinar eru: stærðfræði, íslenska, enska og námstækni. Nám í Menntastoðum kostar 123.000 kr. Hægt er að sækja um styrki hjá stéttarfélögum fyrir skólagjöldum. Jafnframt styrkir Vinnumálastofnun þá nemendur sem eru án atvinnu, eftir að gengið hefur verið frá námssamningi .
 
Hér má nálgast kynningarmyndband sem Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum gerði um Menntastoðir.
 

Boðið er upp á þrjár námsleiðir 

  • Staðnám 1: 50-55 einingum lokið á 6 mánuðum. Kennt er fimm daga vikunnar frá kl. 08:30 til 15:10.
  • Staðnám 2: 10 mánuðir/tvær annir: Kennd eru 4 fög (26 einingar) á fyrri önn og 3 fög (29 einingar) á seinni önn. skv. stundaskrá staðnámshóps.
  • Fjarnám: 10 mánaða langt nám sem byggir á einni helgarstaðlotu í mánuði. 

Nánari upplýsingar 

Öll kennsla í Menntastoðum byggist á tölvum þannig er það skilyrði að nemendur eigi fartölvu með Office 2007 hugbúnaði. Námssamning við Vinnumálastofnun þarf að gera áður en nemandinn hefur námið. Greiða þarf námið fyrirfram, eigi seinna en 2 vikum fyrir skólasetningu. Nánari upplýsingar um greiðslufyrirkomulag veita símenntunarmiðstöðvarnar.
 
Hægt er að stunda námið hjá SÍMEY á Akureyri (s. 460 5720), MSS - Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (s. 421 7500) MÍMI - Símenntun í Reykjavík (s. 580 1800) og VISKU Vestmannaeyjum (s. 481 1950)
 
Nemendur sem ljúka námi í Menntastoðum eiga kost á því að sækja um nám á Háskólabrú Keilis. Nám á Háskólabrú er lánshæft hjá LÍN, samkvæmt reglum LÍN. Sjá nánar á heimasíðu Lánasjóðsins.