Skip to content

Vel heppnað sumarnámskeið á vegum leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku

Í lok júní 2019 stóð Keilir fyrir vel heppnuðu sumarnámskeiði fyrir ungt fólk um útivist og ævintýraferðamennsku. Við þökkum þessum skemmtilegu krökkum fyrir frábæra daga.

Um var að ræða nýtt námskeið, þar sem þátttakendur yfirgefa þægindaramma heimilisins og eyða tímanum þess í stað umlukin náttúrunni, þar sem þau læra nýja færni og þekkingu á útivist, ásamt því að skemmta sér og upplifa ný ævintýri með jafnöldrum sínum.

Keilir hefur boðið upp á leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á háskólastigi síðan árið 2013. Námið er kennt í samstarfi við Thompson Rivers háskólann í Kanada sem er viðurkenndur sem einn af leiðandi skólum í ævintýraferðamennsku á heimsvísu.  

Árlega leggja um tuttugu nemendur frá mörgum mismunandi löndum stund á námið og hafa rúmlega hundrað nemendur útskrifast frá upphafi. Flestir hafa farið í vinnu annað hvort hérlendis eða erlendis, meðal annars hjá leiðandi fyrirtækjum í afþreyingarferðamennsku.

Markmið skólans hefur verið að auka færni og þekking í flestum geirum ævintýraferðamennsku, meðal annars með því að tryggja öryggi leiðsögu- og ferðamanna í óbyggðum ásamt því að auka gæði og þjónustu í greininni. Að náminu koma bæði innlendir og erlendir kennarar sem hafa allir öðlast alþjóðleg réttindi og mikla færni á sínu sviði, svo sem í fjallamennsku eða siglingum.