Vinnuverndarskóli Íslands

Vinnuverndarskóli Íslands sérhæfir sig í sveigjanlegri og skilvirkri vinnuverndarfræðslu sem lagar sig að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig. Leiðbeinendur hafa að geyma áralanga reynslu af vinnuverndarfræðslu og byggja námskeið skólans á nýstárlegum kennsluháttum Keilis. Skólinn hóf starf sitt við upphaf árs 2020 og hefur úrval námskeiða farið stöðugt vaxandi síðan þá.

Nemendur fá aðgang að öllu námsefni og kennslustundum rafrænt áður en námskeið hefst og koma því undirbúnir í vinnustofur sem gerir námið skilvirkara og hagkvæmara. Fá þeir þannig að njóta fyrsta flokks fræðslu sem mótuð er innan formlegs skólakerfis í nýstárlegu og notendavænu umhverfi. Með þessu er komið til móts við þarfir fyrirtækja og fjarvera starfsfólks frá vinnustað verður minni. En námskeið eru boði bæði í fjar- og staðnámi.

Forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands er Guðmundur Kjerúlf.

 • Námskeið

  Keilir býður upp á röð námskeiða um vinnuverndar- og öryggismál.

  Öll námskeið skólans byggjast upp á vendinámi, þar sem nemendur fá námskeiðsgögn send fyrirfram og undirbúa sig áður en þeir koma í kennslustofu. Með þessu fyrirkomulagi er komið á móts við þarfir fyrirtækja og fjarvera starfsfólks frá vinnustað er minni.

  Yfirlit yfir framboð námskeiða Vinnuverndarskóla Íslands

 • Heimsóknir á vinnustað til að undirbúa námskeið og fyrirlestra

  Vinnuverndarskóli Íslands býður vinnustöðum upp á nýja og aukna þjónustu í námskeiðum og fyrirlestrum um vinnuverndarmál. Áður en haldið er námskeið eða fyrirlestur um vinnuverndarmál á vinnustaðnum heimsækir sérfræðingur frá Vinnuverndaskóla Íslands vinnustaðinn og undirbýr námskeiðið í samráði við öryggisnefnd eða fulltrúa vinnustaðarins.

  Í heimsókninni verður haldin stuttur fundur og farið yfir skipulag vinnuverndarmála vinnustaðarins, hvað er gott og hvað má bæta. Að fundinum loknum er farin skoðunarferð um vinnustaðinn og teknar myndir af því sem er jákvætt í vinnuumhverfinu og því sem má laga og gera betur. Upplýsingar af fundinum og myndirnar verða svo notaðar á námskeiði eða fyrirlestri fyrir fyrirtækið. 

 • Fyrirlestrar um vinnuverndarmál

  Vinnuverndarskóli Íslands býður upp á fyrirlestra á vinnustöðum fyrir starfsfólk og stjórnendur. Fyrirlestrarnir geta verið um ýmsa þætti vinnuverndar, t.d. einelti og áreitni á vinnustað, stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis og áreitni, áhættumat starfa, vinnuslys, öryggismenningu, hávaða, móttöku nýliða o.fl. allt eftir óskum hvers vinnustaðar. 

  Fyrirlestrar geta verið 20 - 60 mínútur eftir nánara samkomulagi. Upplagt er að halda fræðslufundi fyrir starfsmenn t.d. með morgunkaffinu, í hádeginu, að starfsdegi loknum eða á verkefnadögum.

 • Forstöðumaður

  Forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands er Guðmundur Kjerúlf

  Guðmundur hefur að geyma áralanga reynslu af utanumhaldi námskeiða og fræðslutengdrar starfsemi sem snýr að vinnuvernd, meðal annars við kennslu, gerð fræðsluefnis og þróunarstarfs. Hann hefur komið að gerð fjölda kennslubóka og rita sem snúa að vinnuvernd svo sem „Öryggi við vélar“ (2019), „Vinna í hæð - Fallvarnir“ (2017), „Félagslegt og andlegt vinnuumhverfi“ (2014), „Vinnuslys - Forvarnir, tilkynning og skráning“ (2013) og „Hæfilegt álag er heilsu best“ (2007). Þá hefur hann komið að fjölda annarra ritverka, ásamt gerð leiðbeininga um áhættumat.

  Á undanförnum árum hefur Guðmundur haldið röð fyrirlestra um vinnuverndarmál, svo sem um vinnuslys, áhættumat, félagslegt og andlegt vinnuumhverfi, einelti, streitu, öryggismenningu og ofbeldi. Þá hefur hann haldið fjölda erinda á ráðstefnum fyrir hönd Vinnueftirlitsins, ásamt því að sitja í fjölda vinnuhópa og sérfræðiteymum um vinnuverndarmál.

  Netfang: vinnuverndarskoli@keilir.net
  Sími: 578 4000