Námskeið um öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir byggingarvinnustaði og mannvirkjagerð

Á byggingarvinnustað þar sem samtímis starfa tveir eða fleiri atvinnurekendur eða verktakar og starfsmenn eru fleiri en tíu skal verkkaupi (eða fulltrúi hans) sjá til þessa að gerð sé öryggis- og heilbrigðisáætlun. Slíka áætlun skal einnig gera ef byggingarvinna er hættuleg. Áætlunin skal liggja fyrir áður en vinna hefst.

Tilgangurinn með þessari áætlun er að tryggja samræmt vinnuvendarstarf allra sem vinna á staðnum til að auka öryggi við framkvæmd vinnunnar. Áætlunin er einnig stjórntæki fyrir sameiginlegt öryggisstarf á vinnustaðnum. Í áætluninni skal m.a. greina þær hættur sem kunna að vera til staðar með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvaða forvarnir verða gerðar.

Fjallað verður um tengsl öryggis- og heilbrigðisáætlunar á byggingarvinnustað og „áhættumats starfa“ samkvæmt reglugerð nr. 920/2006.

Uppbygging

Námskeið Vinnuverndarskóla Íslands byggjast upp á vendinámi. Þegar nemendur skrá sig á námskeiðið fá þeir senda fyrirlestra og lesefni sem þeir kynna sér áður en þeir koma í kennslustofu. Nemendur mæta undirbúnir í kennslustofu. Þar byrjar kennari á því að fara stuttlega yfir aðalatriði efnisins svo eru umræður og unnin verkefni.

Fyrir hverja er námskeiðið

Verkkaupa, samræmingaraðila á byggingarvinnustað, byggingarstjóra, öryggisstjóra, verkstjóra og alla áhugasama um öryggismál við byggingarvinnu.

Ávinningur

Eftir námskeiðið geta nemendur gert öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir alla hefðbunda byggingarvinnustaði.

Lengd

Undirbúningur heima eða á vinnustað og 3 klst. í kennslustofu.

Dagsetningar

Námskeiðið er haldið reglulega, í Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ og í húsnæði Rafmennt, Stórhöfða 27 í Reykjavík og í fjarnámi. Skráðu þig á póstlistann og fáðu tilkynningar þegar væntanleg námskeið hafa verið dagsett.

Verð, nánari upplýsingar og skráning

Námskeiðið kostar 19.900 kr. Innifalin eru öll námsgögn, aðgangur að kennslukerfi og fyrirlestrum, ásamt vinnu í kennslustofu. Veittur er afsláttur fyrir hópa og er frítt fyrir þriðja hvern þátttakanda frá sama fyrirtæki.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands. Vinsamlegast smellið á hlekkina hér fyrir neðan til að skrá þátttakendur á námskeiðið. Áður en námskeiðið hefst verður opnað fyrir aðgang þátttakenda að kennslukerfi og fyrirlestrum á netinu, og er ætlast til að þátttakendur hafi kynnt sér efnið áður en farið verður í kennslustofu.

Skráning á námskeið