Opnir framhaldsskólaáfangar

Keilir býður upp á  áfanga sem miðast við Aðalnámskrá framhaldsskólanna. Áfangarnir henta vel öllum þeim sem þurfa að uppfylla ákveðnar forkröfur til náms innan annarra deilda Keilis. Áfangarnir eru einungis kenndir í fjarnámi og geta nemendur skráð sig og byrjað hvenær sem þeim hentar. Nemendur hafa fjóra mánuði til að ljúka hverjum áfanga, frá því þeir skrá sig í hann. 

 • Bókfærsla I

  Almennt um áfangann

  Í áfanganum er farið í grunninn á bókhaldi og meginreglur tvíhliða bókhalds. Fjallað er um grundvallarhugtökin eignir, skuldir, gjöld og tekjur. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist færni í að annast almennar færslur í dagbók, hafi skilning á uppgjöri og geti sett fram efnahags- og rekstrarreikning.

  Nemendur fá innsýn í notkun flestra reikninga sem telja má til grunnreikninga í fjárhagsbókhaldi. Nemendum er auk þess gerð grein fyrir tilgangi bókhalds og kynnt helstu lög um bókhald og virðisaukaskatt. Nemendur munu vinna sjálfstætt fjölbreytileg verkefni í áfanganum.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Eðlisfræði

  Almennt um áfangann

  Í þessum grunnáfanga í eðlisfræði er farið yfir hreyfingu hluta eftir beinni línu, vigra í tvívíðu rúmi, kraftalögmál Newtons, orkuvarðveislu, skriðþunga, þrýsting og ljósgeislafræði. Áhersla verður á skilning nemandans á efninu og að hann geti tengt það við raunveruleg vandamál. Nemendur munu vinna sjálfstætt fjölbreytileg verkefni í áfanganum.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Enska

  Almennt um áfangann

  Áfanginn byggir á grunnskólahæfni nemenda. Í áfanganum er lögð áhersla á að þjálfa færni nemendans í enskri málfræði, virkri hlustun, lesskilning og tjáningu bæði munnlega og skriflega á enskri tungu. Nemendur munu vinna sjálfstætt við fjölbreytileg verkefni í áfanganum. 

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Hagnýt stærðfræði

  Almennt um áfangann

  Í áfanganum verður farið í verslunarreikning (jöfnur, hlutfalla-, prósentu og vaxtarreikning, verðtryggingu og erlendan gjaldeyri) og grunnþætti tölfræði (tíðni, gröf, miðsækni og dreifingu). Nemendur læra að nota töflureikni við útreikning og úrvinnslu gagna. Nemendur munu vinna sjálfstætt fjölbreytileg verkefni í áfanganum.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Heilbrigðisfræði

  Almennt um áfangann

  Þetta námskeið fjallar um heilbrigði og heilsu. Áhersla verður lögð á heilsu og hin ýmsu heilsufarstengdu vandamál sem þekkjast í dag. Hugtakið heilbrigði verður skilgreint nánar. Farið verður yfir sögulega þróun heilbrigðisfræðinnar. Sérstaklega verður farið yfir forvarnir og mikilvægi þeirra gagnvart heilsu og sjúkdómum.

  Auk þess verður farið yfir slysaforvarnir, tóbaksforvarnir, smitsjúkdómaforvarnir, forvarnir gegn kynsjúkdómum og fleira. Farið verður yfir skipulag og hlutverk heilbrigðisþjónustunnar, hlutverk hennar og helstu stofnanir. Skoðað verður sérstaklega þátt umhverfisins í heilbrigði og farið yfir atriði eins og mengun og áhrif þeirra á menn og lífríki.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Inngangur að næringarfræði

  Almennt um áfangann

  Í áfanganum er fjallað um orku- og næringarefni líkamans. Nemendur kynna sér vel almennar ráðleggingar um mataræði og hvernig þær eru notaðar. Fjallað verður um alla fæðuflokkana, næringarinnihald þeirra og ráðleggingar tengdar þeim. Nemendur læra að lesa innihaldslýsingar og næringarinnihald matvæla. 

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Inngangur að sálfræði

  Almennt um áfangann

  Í áfanganum er sálfræðin kynnt sem fræðigrein, upphaf hennar, eðli, saga, þróun, tengsl við aðrar fræðigreinar, helstu stefnur og grunnhugtök. Fjallað er um starfssvið sálfræðinga og helstu undirgreinar.

  Fjallað er almennt um mannlegt eðli, um sjálfsmynd og um samspil hugsunar, athafna og tilfinninga. Sérstaklega er fjallað um námssálarfræði bæði á fræðilegan og hagnýtan hátt og nemendur læra um mismunandi tegundir náms, minnisaðferðir og námsörðugleika. Nemendur kynnast rannsóknaraðferðum sálfræðinnar bæði bóklega og verklega.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Íslenska

  Almennt um áfangann

  Viðfangsefni áfangans er íslenskt mál og bókmenntir. Nemendur efla markvisst færni sína í lestri og réttritun. Nemendur afla sér heimilda og setja í samhengi við þær bókmenntir sem unnið er með hverju sinni. Þar að auki munu nemendur vinna með ólíka ritstíla og fá þjálfun í því að bera kennsl á einkennandi þætti fyrir ákveðin tímabil bókmenntasögunnar. Nemendur munu vinna sjálfstætt fjölbreytileg verkefni í áfanganum.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Líffæra- og lífeðlisfræði 1

  Almennt um áfangann

  Á námskeiðinu verður farið yfir grundvallar atriði hvað varðar líkamann og hvernig hann starfar. Atriði sem farið verður yfir eru: skipulag líkamans og notkun á latneskum orðum yfir áttir og skipulag líkamans, farið yfir efni líkamans, flutningur á efnum milli frumna, vefjagerðir líkamans og starfsemi þeirra.

  Í áfanganum er farið yfir þekjuvef, beinvef og liði, vöðvavef (sléttir vöðvar, rákóttir vöðvar og hjartavöðvi), taugavef (taugafrumur, taugaboð, mið- og úttaugakerfið, sympatíska og parasympatíska taugakerfið), blóðvef (blóðfrumur og hlutverk blóðsins) og svo hjartað, bygging þess og starfsemi, hringrás blóðs og stýring á blóðþrýstingi. 

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

   

 • Líffæra- og lífeðlisfræði 2

  Almennt um áfangann

  Í áfanganum verður farið yfir helstu grundvallaratriði í líffæra- og lífeðlisfræði. Farið verður yfir eftirfarandi líkamskerfi:

  • Hringrásarkerfið (samsetning blóðsins, uppbygging og starfsemi hjartans og hringrásir blóðs og vessa)
  • Öndunarkerfið (bygging og hlutverk öndunarfæranna, stjórn öndunar og loftskipti í lungum og vefjum)
  • Meltingarkerfið (bygging og hlutverk meltingarfæranna og melting orkuefnanna)
  • Þvagfærakerfið (bygging og hlutverk þvagfæranna, ferill þvagmyndunar og stilling þvagmagns)
  • Æxlunarkerfið (bygging og hlutverk æxlunarfæranna, samsetning sæðis og þroskaferill eggfrumu)

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Sýklafræði

  Almennt um áfangann

  Í áfanganum er fjallað um mismunandi tegundir og sérkenni sýkla. Fjallað er um byggingu sýkla, umhverfisþætti er móta útbreiðslu sýkla, smitleiðir og helstu smitsjúkdóma. Farið er í grundvallaratriði í sértækum og almennum vörnum líkamans gegn sýklum og fjallað um hlutverk ónæmiskerfisins. Sýklalyf fá nokkra umfjöllun. Fjallað er um smitgát og reglugerðir um smitvarnir. Nemendur munu vinna sjálfstætt fjölbreytileg verkefni í áfanganum.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga

 • Upplýsingalæsi á tölvur og sjúkraskrár

  Almennt um áfangann

  Áfanginn fjallar um leit og notkun á fræðilegum upplýsingum. Áhersla verður lögð á að nemendur geti leitað sér að fræðilegum heimildum í leitarvélum, á alnetinu, í bókum og í tímaritum. Fjallað verður sérstaklega um sjúkraskrár, meðferð persónuupplýsinga, þagnarskyldu og varðveislu gagna.

  Farið verður yfir lög og reglur sem snúa að réttindum sjúklinga, lög um sjúkraskrár, lög um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsfólks ásamt skyldum þeirra í tengslum við sjúkraskrár.   Einnig verður fjallað um ritun og uppsetningu faglegra ritgerða, metið áreiðanleika heimilda og skráningu heimilda og ritgerða samkvæmt APA kerfinu.

  Áfangalýsing

  Skráning í áfanga