Ársskýrsla Keilis 2019

Aðalfundur Keilis var haldinn miðvikudaginn 27. maí síðastliðinn í húsnæði skólans á Ásbrú í Reykjanesbæ. Á fundinum voru ársreikningar og ársskýrsla félagsins kynnt.

Þá var ný stjórn félagsins kosin en meðal breytinga er að Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar HS orku, tekur sæti Ásgeirs Margeirssonar, sem setið hefur í stjórn Keilis frá upphafi. Var Ásgeiri þökkuð sín störf.

Í samantekt framkvæmdastjóra Keilis á árinu kom fram að námsframboð Keilis væri afar fjölbreytt. Keilir er miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og eflist við hverja raun. Mikil vinna hefur verið lögð í að tryggja fjárhagslega endurskipulagningu skólans á starfsárinu og sér nú fyrir endann á þeirri vegferð.

Mikilvægi Keilis fyrir menntun á Suðurnesjum og á landinu öllu ætti nú að vera orðin öllum ljós. Skólinn þarf traustan fjárhagslegan grunn til þess að takast á við breytta tíma og burði til þess að opna dyr sínar í haust fyrir stórum fjölda nemenda sem sækist eftir menntun á tímum samdráttar í efnahagslífinu.

Á heimasíðunni má nálgast ársskýrslu Keilis 2019 á rafrænu formi en þar kemur meðal annars fram að Keilir veltir um einum og hálfum milljarði króna og að ásókn í nám og námskeið á vegum skólans hafi aldrei verið meiri.

ÁRSSKÝRSLA KEILIS 2019