Ágúst Máni í starfsþjálfun hjá Solid Clouds

Ágúst Máni, nemandi á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú, hóf starfsþjálfun hjá íslenska tölvuleikjaframleiðandanum Solid Clouds nú við upphaf júní.

Solid Clouds var stofnað árið 2013 af Stefáni Gunnarssyni og Stefáni Þór Björnssyni. Allar götur síðan hefur fyrirtækið unnið að gerð fjölhliða herkænskuleiksins Starborne með hjálp forritsins Unity. Í leiknum keppast leikmenn ýmist um eða vinna saman að uppbyggingu stórvelda í geimnum. Þungamiðja leikjahönnunarinnar felst í fallega hönnuðu korti sem dregur fram valmöguleika leikmanna og veitir þeim sérstaka sýn á hvað hægt er að áorka innan leiksins.

En nýverið undirrituðu Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari MÁ, og Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds, samstarfssamning. Í honum felst að Solid Clouds munu útvega allt að fimm nemendum Menntaskólans aðstöðu og tölvubúnað sem hluta af verklegri kennslu þeirra og þannig auka fjölbreytileika og styðja við gæði náms hjá skólanum.  

Þar sem Ágúst Máni reið á vaðið af nemendum Menntaskólans á Ásbrú ákváðum við að taka af honum smá tal og spyrja hann út í tölvuleikjagerðina og framtíðaráætlanir.

Hvers vegna ákvaðst þú að læra tölvuleikjagerð?

Ég ákvað að læra tölvuleikjagerð vegna þess að mig hefur lengi dreymt um að búa til minn eigin tölvuleik, minn drauma leik.

Hvað gerir þú hjá Solid Clouds?

Ég er í starfsþjálfun hjá Solid Clouds, til þess að fá reynslu í þessum iðnaði og mynda tengsl. Núna er ég að vinna í Customer Support hjá þeim en ég hef einnig gert vefsíðu fyrir þá, fyrir leik sem er ekki enn kominn út.

Hvernig finnst þér námið í Menntaskólanum á Ásbrú hafa undirbúið þig fyrir starfsnámið?

Námið í Menntaskólanum á Ásbrú hefur undirbúið mig mikið með að vera tilbúinn til að laga mig að nýju umhverfi og hafa góðan skilning á því hvernig allt tengt tölvuleikjagerð virkar.

Hvað er það sem þér þykir áhugaverðast við námið þitt, eða bara tölvuleikjaiðnaðinn almennt?

Mér finnst það mjög áhugavert hvernig maður býr til umhverfi, þema og sögu fyrir tölvuleiki. Og hvernig út frá því getur myndast stór hópur aðdáenda sem eru mjög „dedicated“. Þess vegna finnst mér mjög gaman að skapa umhverfi og ákveða hver sagan á bak við leikinn er. Mig langar nefnilega að búa til stóran og flottan leik með góða og eftirminnilega sögu sem mun slá í gegn og vonandi hafa stóran hóp aðdáenda.

Hverjar eru fyrirmyndir þínar í tölvuleikjaheiminum?

Ég er með nokkrar fyrirmyndir í tölvuleikjaiðnaðinum. Til dæmis elska ég hvernig Bethesda og Interplay Entertainment geta búið til flotta „Open World/RPG“ leiki með eftirminnilegum heimum, persónum og í heild tilfinningu á bak við sem er svo djúp og skemmtileg. Þá vísa ég í Fallout og Elder Scrolls leikina. Síðan er það EA og flottu gömlu leikirnir þeirra, eins og Star Wars Battlefront II og Medal of Honor. Mér finnst það alveg til fyrirmyndar hvað þeir voru með vel hönnuð kort fyrir leikina, sem buðu upp á fjölbreytileika um hvernig þú tæklar mismunandi aðstæður og einnig mismunandi þema á bak við hvert einasta kort.

Hvað langar þig að gera í framhaldinu eftir útskrift?

Þegar ég útskrifast úr Menntaskólanum á Ásbrú ætla ég líklegast að fara erlendis að læra meira um leikjagerð og ég ætla líka að læra hvernig maður rekur tölvuleikjafyrirtæki. Því ég svoleiðis ætla mér að stofna fyrirtæki, búa til drauma leikina mína og deila þeim með heiminum.


Tengdar fréttir