Sumaráfangi í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú

Nemendur í framhaldsskólum, nýútskrifaðir nemendur úr grunnskólum eða aðrir einstaklingar sem vilja efla færni sína í hugverkaiðnaði eða kynnast vettvanginum stendur til boða að taka grunnáfanga í tölvuleikjagerð sumarið 2020.

Námið fer að öllu leyti fram í fjarnámi og er því í boði fyrir einstaklinga hvaðan sem er af landinu. Um er að ræða skapandi tækninám byggt á sérþekkingu og sérhæfingu kennara við Menntaskólann á Ásbrú sem á í öflugu samstarfi við fyrirtæki í hugverkaiðnaði á Íslandi. Nemendur vinna með grunnhugmyndir leikjagerðar og leikhönnun.

Áhersla er lögð á að nemendur þekki ferla í gerð tölvuleikja, þjálfi leikni og færni í hugmyndavinnu og frásagnalist. Unnið er með forritið Unity og þar munu nemendur vinna frumgerð að leik í áfanganum. Sérstök áhersla er á að nemendur þjálfist í listrænni vinnu við söguþráð og persónusköpun, leikjafræðilegri útfærslu gagnvirkra þátta, nýtingu hvataþátta (gamification) og þeim hughrifum sem reynt er að efla við spilun.

Áfanginn er þriggja eininga áfangi og verður í boði eftirfarandi tímabil á komandi sumri:

  • 29. júní - 10. júlí [Umsókn]
  • 13. júlí - 24. júlí [Umsókn]

Gera má ráð fyrir mætingu samkvæmt stundatöflu í tölvunni. Lágmarksþátttaka er 10 manns, en hámark er 15 í hverjum kenndum hópi. Áfangi fellur niður náist lágmarksþátttaka ekki. Miðað er við að þátttakendur séu 16 ára eða eldri (fæddir 2004).

Skráningargjald er 3.000 kr. sem endurgreiðast ljúki nemandi áfanganum á fullnægjandi hátt. Skráningar hefjast þriðjudaginn 26. maí næstkomandi á vefsíðu Menntaskólans á Ásbrú og Keilis. Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á menntaskolinn@keilir.net

Uppsetning og kennsla áfangans er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 


Tengdar fréttir