Samstarfsverkefni Menntaskólans á Ásbrú og Solid Clouds

Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds og Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari MÁ…
Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds og Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari MÁ.

Mánudaginn 1. febrúar hefst annað samstarfsverkefni Menntaskólans á Ásbrú og íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Solid Clouds. Verkefnið er leikjadjamm (e. game-jam) annars árs nemenda á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð sem munu á þremur vikum hanna leiki sem þeir kynna fyrir starfsmönnum Solid Clouds og fá endurgjöf fyrir verkin.

Í leikjadjömmum felst að keppast við að búa til sem bestan leik á sem stystum tíma, iðulega eftir ákveðnum reglum eða þema. Verkefnið hefst á kynningu Solid Clouds á starfsemi sinni fyrir nemendum í gegnum samskiptaforritið Discord en að því loknu munu kennarar kynna verkefnið fyrir nemendum.

Verkefnið

Eftir kynninguna hafa nemendur viku til þess að mynda þriggja manna hópa og ákveða leikjahugmynd. Því næst halda þau sölukynningu (e. pitch) fyrir fulltrúa Solid Clouds og kennara þar sem þau selja hugmyndina sína með sjónrænni kynningu. Þar fá þau svo endurgjöf á leikjahugmyndina (e. game concept) og munu hafa færi á að vinna hana frekar áfram.

Þá tekur við framleiðsla leiksins, en nemendur hafa þrjár vikur til þess að búa til leikina og skila þeim inn á vef til prófunar frá samnemendum og fulltrúum Solid Clouds. Í kjölfarið verður verðlaunaafhending en fulltrúar Solid Clouds velja verðlaunaflokkana og sigurvegara þeirra.

Darri Arnarson, fagstjóri tölvuleikjagerðar við Menntaskólann á Ásbrú segir um verkefnið „Samstarfsverkefni eins og þetta eru mjög mikilvægur partur af því að tengja saman nemendur og íslensku leikjagerðarfyrirtækin. Í dag er mikil vöntun á sérþjálfuðu starfsfólki til að byggja upp íslenska leikjageiran og einn lykil þátturinn í því er að brúa bilið á milli skólanna og fyrirtækjanna.”

Samstarfsaðilinn

Solid Clouds vinnur að gerð fjölspilunar herkænskuleiksins Starborne þar sem leikmenn ýmist keppast um eða vinna saman að uppbyggingu stórvelda í geimnum. Þungamiðja leikjahönnunarinnar felst í fallega hönnuðu korti, byggðu á byltingarkenndri tækni, sem dregur fram valmöguleika leikmanna og veitir þeim sérstaka sýn á hvað hægt er að áorka innan leiksins.

Þetta er annað samstarfsverkefni þessara aðila en Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari MÁ, og Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds, undirrituðu samstarfssamning þann 18. júní síðastliðinn þess efnis að Solid Clouds munu útvega allt að fimm nemendum við Menntaskólann aðstöðu og tölvubúnað sem hluta af verklegri kennslu þeirra og á þann hátt auka fjölbreytileika og styðja við gæði þess náms sem fer fram í MÁ.


Tengdar fréttir