Leikjastreymi MÁ

Leikjastreymi Menntaskólans á Ásbrú fór fram á Twitch í gær, en þar prófuðu Lovísa Gunnlaugsdóttir, annars árs nemi á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð, og Sverrir Bergmann, stærðfræðikennari, leiki sem nemendur hafa gert í námi sínu við Menntaskólann á Ásbrú.  Streymið er þáttur í stafrænni UTmessu 2021 en Menntaskólinn á Ásbrú mun einnig taka þátt í ráðstefnu deginum, 5. febrúar, með stafrænu opnu húsi og tæknideginum, 6. febrúar, með spjallherbergi.

Flesta leikina má finna í leikjaherberginu okkar. En fyrst prófuðu þau leikinn Cute, Cool and Popular eftir Hrafnkel, Hrefnu og Jón Inga sem unninn var undir leiðsögn fulltrúa frá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu CCP. Því næst var það leikurinn No pain, no gain sem Lovísa gerði á fyrstu önninni í tölvuleikjagerð eftir aðeins tveggja vikna nám við skólann. Karakterinn, hreyfingar hans og þrautir teiknaði Lovísa sjálf en bakgrunninn fékk hún annar staðar, hún segir að í dag myndi hún huga betur að atriðum eins og því hvernig karakterinn hreyfist og hversu hátt hann getur stokkið. Enda farið dýpra í eðlisfræði innan leikja eftir því sem nemendur fara lengra inn í námið. Þá prófuðu þau leikinn Shadow Boy sem Aron Máni gerði á fyrstu önninni sinni núna í haust. 

Leikurinn Airport Games var unninn í samstarfsverkefni við ISAVIA af Aron Birgi, Saulinus og Erwin á fyrsta námsári þeirra. Er hann spjaldtölvuleikur hugsaður fyrir yngstu kynslóð flugfarþega. Þó tókst honum að skemmta þeim Lovísu og Sverri nokkuð vel en höfðu þau helst orð á því hversu róandi tónlistin væri.

Þá létu þau reyna á fleiri leiki úr samstarfsverkefni MÁ og CCP en voru það leikurinn Happy Farmer eftir Viktoríu og Aron Birgi sem er í anda Farmville. Leikurinn vakti mikla lukku leikmanna en hann vann verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina. Því næst var það annar verðlaunaleikur úr sama verkefni, en var það leikurinn Blowin' up sem vann verðlaunin "skemmtilegasti leikurinn". Leikinn hannaði Lovísa með Stefáni Inga. Í honum etja tvær pöddur kappi við að sprengja sér leið að marklínunni en svo óheppilega vildi til að sjálfur leikjahönnuðurinn lét lægra haldi fyrir stærðfræðikennaranum í sprengjuleiknum.

Þá kom að því að reyna að hræða kennarann og nemandann með hrekkjavökuþemuðu leikjunum Halloween Quiz eftir Brimar, Huga og Jóel og þrívíddarleiknum Point Lookout eftir Ágúst Mána, Gabríel Goða, Styrmi og Þórð. Á myndbandinu hér að neðan má sjá hvernig tókst til við hræðsluna:


Tengdar fréttir