Fjarnámsaðstæður við MÁ vikuna 5. - 9. október

Öll vinna nemenda og kennara færist yfir í fjarnámsaðstæður í komandi viku, 5.-9.október. Vikan er sú síðasta í fyrri lotu annarinnar. Skólastarfið verður nánast með óbreyttu sniði, sama stundatafla, sömu verkefni, virk mætingaskylda o.s.frv. Það eina sem breytist er að í stað þess að nemendur séu staðsettir á Ásbrú í kennslu stundum þá verða þau stödd heima hjá sér. Þetta gerir örlítið auknar kröfur til nemenda hvað varðar sjálfstæð vinnubrögð og þau þurfa að vera mjög virk og móttækileg í rafrænum samskiptum – bæði við samnemendur og kennara.

Stundatöflur gilda líkt og áður og kennarar verða til taks samkvæmt þeim og munu jafnvel óska eftir því að hitta á nemendur á þeim tíma sem kennslustund er virk. Við stefnum ótrauð að því að engin töf verði á verkefnum og vinnu annarinnar þrátt fyrir þessa breytingu á starfsháttum.

Kennarar hafa undirbúið önnina með það í huga að þessi staða gæti komið upp og nemendur hafa t.a.m. notað samskiptaforritið Discord í kennslustundum frá fyrsta skóladegi í haust af þessum sökum. Þess vegna er mjög mikilvægt að nemendur séu virkir á Discord meðan á kennslustundum stendur með tengdan hljóðnema og hátalara á einhverju formi. Ef gera þarf einhverjar breytingar í vinnu og námsmati áfanga vegna tilfærslunnar yfir í fjarnám þá mun sérhver kennari kynna það sérstaklega fyrir sínum hópum. Ég hvet ykkur öll til að nýta ykkur þær rafrænu þjónustuleiðir sem við höfum svo sem vefsíðu, tölvupóst, Moodle og Discord. Á þessum tímum er jafnvel enn meiri ástæða til að nýta sér þjónustu námsráðgjafa - Þóra og Skúli

Í vikunni  12.-16.október eru lotuskil. Þeir nemendur sem staðið hafa skil á öllum verkefnum á fullnægjandi hátt þurfa ekki að sinna neinni viðveru þá viku. Nemendur sem sinna þurfa úrbótaverkefnum/úrbótaprófum í lotuskilaviku munu fá boð frá kennurum sínum varðandi nánari útfærslu fyrir vikulok.   

Það er ekki ráð á þessari stundu að velta fyrir sér starfsháttum í upphafi lotu tvö – það eru margir þættir sem munu hafa áhrif á það - en það verður að sjálfsögðu kynnt vel þegar nær dregur.


Tengdar fréttir