Áframhaldandi fjarnám út vorönn 2020

Nemendur við Menntaskólann á Ásbrú munu ljúka sinni vinnu á vorönn 2020 í fjarnámi þrátt fyrir komandi tilslökun á samkomubanni stjórnvalda í skrefum frá og með 4. maí næstkomandi. Þessi ákvörðun tekur mið af þeim varúðarráðstöfunum sem halda enn gildi varðandi fjöldatakmarkanir í húsi, fjarlægð milli einstaklinga og hreinlætisaðgerðir.

Nám á tölvuleikjabraut MÁ hefur gengið vel undanfarinn mánuð undir breyttum aðstæðum samkomubanns á Íslandi. Nemendur og kennarar hafa fært vinnu sína heim á við og eiga þaðan samskipti daglega í gegnum miðilinn Discord. Nemendur vinna jafnt hóp- og einstaklingsverkefni að heiman og hefur virkni þeirra ekki verið síðri undanfarið en í venjulegu árferði. Vinna kennara hefur verið krefjandi, þeim hefur verið gert að breyta verkefnum og í einhverjum tilfellum aðferðum til þess að aðlagast breyttum aðstæðum. Þá hafa þeir í auknum mæli tekið ábyrgð á því að fylgjast með framvindu verkefna nemenda og hafa þeir með góðum árangri fikrað sig áfram við að finna jafnvægi eftirfylgni og sjálfstæðra vinnubragða nemenda.

Mikill kraftur hefur verið settur í það að hálfu Menntaskólans á Ásbrú og Keilis að fylgjast með líðan nemenda og bjóða þeim úrræði til stuðnings á þessum einkennilegu tímum. Augljóst er að þær aðstæður sem nú eru ríkjandi  eru til þess fallnar að öðruvísi kröfur séu gerðar til nemenda í þeirra daglega lífi og áhrif þess misjöfn. Fulltrúar nemenda eiga hrós skilið fyrir það frumkvæði sem þeir hafa sýnt við að halda uppi vísi að stafrænu félagslífi og nemendur eru að eigin sögn iðnir við að halda samskiptum innan hópsins utan kennslustunda.

Síðasti kennsludagur á vorönn er miðvikudagurinn 13. maí og í kjölfarið er lotuskilavika. Nemendur sem þurfa á endurtöku námsmats að halda eða sjúkranámsmati, munu verða boðaðir af viðkomandi kennara í skólann í lotuskilaviku. Fyrsti kennsludagur næsta vetrar er áætlaður mánudagurinn 17.ágúst, en skóladagatal næsta vetrar verður gert aðgengilegt á vef MÁ innan tíðar. Stefnt er að því að staðnám hefjist að nýju í upphafi haustannar.


Tengdar fréttir