Framhaldsskólaeiningar eru skilgreindar út frá vinnuframlagi nemenda. Ein framhaldsskólaeining samsvarar 18-24 klst vinnu meðal nemanda, það er að segja þriggja daga vinnu nemenda ef gert er ráð fyrir sex til átta klukkustunda vinnu að meðaltali á dag. Innifalið í þessari mælingu er tímasókn nemandans, heimavinna, námsmatsundirbúningur og þátttaka í námsmati. Fullt ársnám nemenda er 66-68 einingar og er þá miðað við 180 daga skólaár. Einingafjöldi áfanga sést í tveimur síðustu tölustöfum í áfanganúmerinu.
Nemandi ber ábyrgð á eigin námi, þar með talið skráningu og því að skráning sé í samræmi við kröfur viðkomandi námsbrautar og í samræmi við reglur um framvindu og undanfara áfanga. Á fyrstu kennsluviku hverrar annar getur nemandi skráð sig í áfanga. Nemandi getur skráð sig úr áfanga á fyrstu tveimur vikum námsannar hjá námsráðgjafa. Að beiðni nemanda geta námsráðgjafar veitt heimild til að skrá sig úr áföngum þó framangreindir frestir séu liðnir ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Meðal ástæðna sem talist geta gildar eru veikindi eða slys.
Hefðbundinn námstími til stúdentsprófs er 3 ár og þarf nemandi að taka ~34 fein. á önn til að ljúka á þeim tíma. Nemendur velji áfanga í samráði við náms- og starfsráðgjafa með aðgangsviðmið háskólanna og þrepaskiptingu áfanga samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskólanna til hliðsjónar.
Hægt er að setja upp námsferil nemenda sem spannar lengra tímabil en þrjú ár. Sérhver beiðni um slíkt er skoðuð af námsráðgjafa í samstarfi við nemanda og/eða forráðamenn og í kjölfarið er tekin ákvörðun um sérsniðinn námsferil sem talinn er efla nemandann.
Nemandi sem lokið hefur framhaldsskólaeiningum úr öðrum viðurkenndum framhaldsskólum, eða menntastofnunum með leyfi til kennslu á framhaldsskólastigi samkvæmt gildandi Aðalnámskrá, skal fá úrskurð um það hvort þær einingar fáist metnar og í ef svo er þá verða þær skráðar í námsferil nemenda.
Nemanda sem óskar eftir sértækum úrræðum í námi ber að skila umsókn til námsráðgjafa Keilis. Nemandi getur sótt um sérúrræði í námi, skili hann inn vottorði/greiningu frá viðurkenndum fagaðilum.
Einkunnagjöf
Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 10 vísar til þess að 95–100% markmiða hafi verið náð og 5 til þess að 45–54% markmiða hafi verið náð. Lágmarkseinkunn í áfanga er 5. Nemandi telst ekki hafa staðist áfanga þegar einkunn er lægri og í tilvikum þar sem áfanginn sem nemandi hefur ekki staðist er undanfari annars áfanga, fær nemandinn ekki að taka næsta áfanga á eftir.
Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvær slíkar einkunnir á útskriftarskírteini. Þessir áfangar gefa ekki einingar og verður nemandi því að afla annarra eininga í stað þeirra.
Ef fall í einum áfanga á lokaönn kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast fær hann tækifæri til þess að fara í endurtöku próf eða verkefni í þeim áfanga. Nemandinn öðlast ekki þennan rétt fyrr en ljóst er að hann hafi náð fullnægjandi árangri í öðrum áföngum á lokaönn. Nemendur eiga almennt ekki rétt á endurtektarprófi í símatsáföngum ef í áfangalýsingu eða kennsluáætlun, sem nemendur fá í upphafi annar, er skýrt tekið fram að námsmatið byggist á símati sem nemendur verði að standast.
Um skil nemenda á verkefnum
Í námskeiði setur kennari reglur um skilafrest verkefna í upphafi annar og ber nemanda að skila verkefni áður en frestur er útrunninn. Kennari hefur ekki heimild til þess að taka við verkefni sem skilað er of seint. Nemandi hefur möguleika á því að sækja um að skila verkefni seint með beiðni í tölvupósti til skólameistara. Í beiðni um sein skil þurfa að koma fram eftirfarandi atriði: a) fullt nafn og kennitala nemanda, áfangaheiti, heiti kennara, heiti verkefnis sem um ræðir og vægisprósenta verkefnis og b) ítarleg ástæða þess að skilafrestur var ekki virtur. Vanti upplýsingar í beiðnina mun það valda seinkun á meðhöndlun. Skólameistari svarar almennt beiðnum innan fimm virkra daga. Samþykki skólameistari undanþágu frá skilafresti mun hámarkseinkunn verkefnis aldrei verða umfram 5,0.
Áhrif þess að nemandi ljúki ekki einstaka námsmatsþáttum
Heilindi í verki
MÁ gerir þá kröfu til nemanda að öll verkefni sem hann skilar séu hans eigið hugverk. Í því felst meðal annars að hann vinni verkefnið sjálfur frá grunni, án aðstoðar annarra, og taki aldrei upp texta eða vinnu annarra og setji fram sem sitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka.
Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan áfanga, milli áfanga eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé tekið fram.
Kennara er heimilt að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að nemendur megi ekki vinna saman að verkefnum, og gerir hann þá skriflega grein fyrir því í verkefnislýsingu. Sama á við í hópverkefnum; verkefnið skal vera unnið af hópnum frá grunni, án aðstoðar annarra, og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð.
MÁ gerir þá kröfu að nemandi leggi sig ávallt fram í hópstarfi og gæti þess að framlag hans sé sambærilegt á við hina í hópnum. Kennari hefur heimild til að gefa einstaklingum í hópi mismunandi einkunn ef ljóst þykir að framlag þeirra hefur verið verulega ójafnt. Í hópverkefnum hefur hópurinn möguleika á að skipta með sér verkum, þó þannig að vinnuframlag einstakra hópmeðlima til verkefnisins sé sambærilegt. Allur hópurinn er þó eftir sem áður ábyrgur fyrir heildarverkinu.
Almennt um próftöku
Sjúkra- og endurtektarréttur vegna einstakra námsmatsþátta: