Reglur um skólasókn

 1. Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega.
 2. Það telst seinkoma ef nemandi er ekki mættur þegar kennari er búinn að lesa upp eða skrá ástundun í upphafi kennslustundar.  
 3. Nemendur bera ábyrgð á eigin mætingu og geta fylgst með ástundunarskráningu sinni í Innu. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við ástundunarskráningu þá verða þær að berast innan einnar viku til viðkomandi kennara. 
 4. Foreldrar nemenda yngri en 18 ára skulu tilkynna veikindaforföll rafrænt í Innu samdægurs. Nemendur eldri en 18 ára skulu gera slíkt hið sama sjálfir.
 5. Öll fjarvera lækkar skólasóknarprósentu nemenda.
 6. Skólasókn skal vera 85% hið minnsta. Að öðrum kosti eiga nemendur ekki vísa skólavist á næstu önn. Sé skólasókn í lok annar undir 85% getur skólinn ákveðið að bjóða nemendum skólasóknarsamning á næstu önn með tilteknum skilyrðum.
 7. Fari skólasókn undir 90% er nemanda veitt formlega áminning og ef skólasókn fer niður fyrir 85% þá má vísa nemanda úr skóla.
 8. Nemendur með afburða skólasókn í lok annar – yfir 95% - fær eina einingu fyrir ástundun sína.

Sértækar ábendingar

 • Nemendur sem stríða við langvinn og/eða þrálát veikindi þurfa að skila læknisvottorði árlega og tekið er sérstakt tillit til þessa vegna skólasóknar. Námsráðgjafi hefur milligöngu vegna slíkra tilvika.
 • Leyfi eru eingöngu veitt af skólameistara vegna eftirfarandi aðstæðna: 
  - dauðsfall í nánustu fjölskyldu
  - ferðir/æfingar á vegum landsliða í íþróttum
  - æfingar/leitir á vegum björgunarsveita
 • Nemendum eru ekki reiknaðar fjarvistir vegna viðurkenndra ferða á vegum skólans.
 • Öll leyfi eða vottorð eru tekin til skoðunar og skráð af skólameistara.
 • Tvisvar á önn eru fjarvistayfirlit sérstaklega send nemendum í tölvupósti – og foreldrum / forráðamönnum í tilfelli nemenda yngri en 18 ára. Við ágreining vegna ástundunarskráningar geta nemendur og kennarar skotið vafaatriðum til úrskurðar skólameistara. 
 • Ein fjarvist jafngildir einu fjarvistarstigi og ein seinkoma jafngildir 0,5 fjarvistarstigi.

Einkunn fyrir skólasókn

Einkunn er gefin fyrir skólasókn og birtist hún í námsferli nemenda og á útskriftarskírteini. Skólasóknareinkunn er reiknuð á eftirfarandi hátt: 

Skólasókn

 

Einkunn

98% - 100%

 

10

95% - 97%

 

9

92% - 94%

 

8

89% - 91%

 

7

85% - 88%

 

6

0 – 85%

 

4