Fara í efni

Stelpur og tækni

Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ásbrú skrifar hér stutta grein um stelpur og tækni í tilefni af konudeginum og spennandi nýju verkefni sem stelpur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð vinna að.

Við erum svo heppin við Menntaskólann á Ásbrú að eiga hóp af stúlkum sem hóf nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð hjá okkur sl. haust. Í samstarfi við þær ætlum við að setja upp vinnustofu tengda tölvuleikjagerðinni sem verður til þess fallin að stelpur sjái að hér er tæknigrein – hugverkaiðnaður – þar sem kraftar þeirra áhugasvið og tilfinningar eru metnar að verðleikum.

Stelpur og tækni

Stelpur velja síður tæknitengt nám og störf. (Vanda)málið varð mér persónulega ljóst fyrir einum 15 árum. Ég var þá að gera það sem mörgum þykir allt frá því að vera fáránlegt yfir í að vera fáránlega áhugavert – tengja saman tvær gríðarlega ólíkar fræðigreinar í mastersverkefni. Efnafræði og sálfræði.

Á þeirri vegferð var ég búin að grafa upp ýmsar rannsóknir tengdar áhugahvöt og lesa mig til um að stelpur virðast ekki sýna raunvísinda- og tæknigreinum jafn mikinn áhuga og strákar í námsaðstæðum. Ég tók þetta mikið til mín og vildi breyta til batnaðar. Síðan þá er mikið vatn runnið til sjávar, en eftir stendur svo til óbreytt staða í hinu vestræna samfélagi, að stelpur velja síður að stunda nám í tæknigreinum.

Það er vægast sagt óheppileg staða fyrir samfélagið og þar að auki eru tæknigreinar, bæði nám og störf, sannarlega hentugur vettvangur fyrir kvenfólk. Flestir eru sammála um það að nauðsynlegt er að opna þessar dyr upp á gátt af a.m.k. tveimur gildum ástæðum. Í fyrsta lagi svo að stelpurnar okkar, sem eiga þessa kennd í sér að hafa áhuga sjái sér fært að velja vettvang í lífinu sem gerir þeim kleift að feta þann veg. Í öðru lagi því framtíðin okkar mótast að miklu leyti af tækni og þar af leiðandi þeim sem búa hana til – í nútímasamfélagi er það mikilvægt að kvenfólk komi að þeirri vinnu til jafns við karlmenn.

Í starfi mínu í menntamálum hitti ég margar stelpur á efstu stigum grunnskóla. Ég spyr „spilið þið tölvuleiki?“ – „neeeiii, eiginlega ekkert, kannski bara smá í símanum.“ Þeir sem starfa með ungu fólki geta staðfest þetta, tilsvör stúlkna eru á þá leið að láta það hljóma sem svo að engin tölvuleikjanotkun sé fyrir hendi hvort sem það er staðreynd eður ei.

Strákar á sama aldri telja það aftur á móti stöðutákn að lista upp notkun á ákveðnum leikjum, þeir gorta sig jafnvel að því að vera dottnir í leiki sem þeir hafa spilað af og á frá 9 ára aldri. Það gefur augaleið að í heild sinni tengjast þessu máli margar breytur og geta áhugasamir grafið upp endurtekna umræðu, rannsóknir og töluleg gögn frá ólíkum aðilum í samfélaginu sl. mörg ár, s.s. hjá SI. Hvað sem við ætlum að gera í þessu, þá megum við ekki gera ekki neitt.

Ég tel nauðsynlegt að hlúa að þessu máli og vinna að breytingum bæði án fordóma og með tilliti til skoðana ungra stúlkna. Það er mikið gleðiefni að ýmsum málum hefur undanfarið verið fleytt til framtíðar á betri vegferð heldur en áður tíðkaðist. Gott dæmi er barnaþing sem haldið var í nóvember sl. þar sem sérstaklega var að því gætt að rödd barna væri tekin til greina í umfjöllun um málefni barna.

Allt of oft hefur þetta atriði verið tekið út fyrir sviga í þeim anda að sérfræðingar séu að störfum. Þegar málefni liggja undir smásjánni, þá er það í dag orðið viðurkennt að rödd þeirra sem það viðkemur sé tekin inn í mengið. Við erum svo heppin við Menntaskólann á Ásbrú að eiga duglegan hóp af stúlkum sem hóf nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð hjá okkur sl. haust og í samstarfi við þær ætlum við að velta þessu máli upp og setja upp vinnustofu í tilefni stelpur & tækni tengda tölvuleikjagerðinni. Vinnustofan verður til þess fallin að stelpur sjái að hér er tæknigrein – hugverkaiðnaður – þar sem kraftar þeirra, áhugasvið og tilfinningar eru metnar að verðleikum.

Við fögnum því innilega að Háskólinn í Reykjavík ásamt samstarfsaðilum sínum heldur uppi nafni Girls in ICT á Íslandi nú áttunda árið í röð og heldur áfram að sá fræjum og brjóta niður þá múra sem kunna að aftra stelpum frá því að velja sér nám og lífsvettvang tengdum tækni.  

Nanna Kristjana Traustadóttir,
Skólameistari Menntaskólans á Ásbrú