Samstarfsverkefni CCP og Menntaskólans á Ásbrú

Í dag fer af stað lokaverkefni annars árs nema á Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú. Lokaverkefnið er samstarfsverkefni milli skólans og tölvuleikjaframleiðandans CCP og er það í anda svokallaðra leikjadjamma (e. game-jam).

Í leikjadjömmum felst að keppast við að búa til sem bestan leik á sem stystum tíma, iðulega eftir ákveðnum reglum eða þema. Verkefni nemenda hefst sem áður segir í dag á því að CCP kynnir starfsemi sína fyrir nemendum í gegnum samskiptaforritið Discord, að því loknu munu kennarar kynna verkefnið fyrir nemendum.

Verkefnið

Nemendur vinna saman í hópum og munu þeir næst halda sölukynningu (e. pitch) fyrir fulltrúa CCP og kennara þar sem þeir selja hugmynd sína að leik með sjónrænni kynningu. Þar fá þeir svo endurgjöf á leikjahugmyndina (e. game concept) og munu hafa færi á að vinna hana frekar áfram.  Því næst eru hlutaskil til kennara með grunn að hönnun leiksins (e. game design document), sem inniheldur grunn að leiknum, hugmyndir að grafík og litaþema, skissur og verkaskiptingu.

Eftir að hafa fengið endurgjöf frá kennurum hafa nemendur eina og hálfa viku til frekari útfærslu og vinnu en á tímabilinu verða haldnir Discord fundir með fulltrúum CCP og kennurum þar sem nemendur fá endurgjöf. Skil á snemmútgáfu (e. alpha version) eru áætluð í lok þessa tímabils. Í kjölfar þeirra fer svo fram fínpússun á leikjunum og jafningjarýni. Verkefninu lýkur svo með kynningum á lokaútgáfum. Í kjölfarið munu fulltrúar CCP kjósa um hver leikjanna lofar bestu og verða veitt þrenn verðlaun en fulltrúar CCP velja verðlaunaflokkana og sigurvegara. 

Líkt og sjá má svipar ferli verkefnisins mjög til eiginlegs ferils og vinnu við gerð tölvuleikja í raunheimum. Verkefnið uppfyllir því vel það markmið Menntaskólans á Ásbrú að undirbúa nemendur fyrir áframhaldandi nám og störf á sviði hugverkaiðnaðar með raunhæfum verkefnum í tengslum við atvinnulífið.

Samstarfsaðilinn

Reynsla CCP sem frumkvöðull í tölvuleikjagerð ætti að koma nemendum að góðu gagni. Fyrirtækið hóf göngu sína sem þriggja manna sprotafyrirtæki árið 1997. Fyrstu árin var að mestu unnið að grafískum verkefnum s.s. fyrir Latabæ og útgáfu borðspilsins Hættuspilið til þess að fjármagna framleiðslu leiksins sem myndi síðar veita þeim heimsfrægð. En harkið borgaði sig og sex árum eftir stofnun, árið 2003, var fyrsta útgáfa fjölnotendanetspunaleiksins (e. MMORPG) EVE Online gefin út.

Í dag er leikurinn einn sá vinsælasti sinnar tegundar á heimsvísu. CCP flutti á árinu í nýjar höfuðstöðvar sem rúma þá um 230 starfsmenn sem starfa nú hjá fyrirtækinu og gengi nýrrar farsímaútgáfu EVE fór vonum framar. Reglulega eru haldnar aðdáendahátíðir (e. fanfest) þar sem leikmenn koma saman, spila og ræða um leikinn og á hann jafnvel sinn eigin sagnfræðing sem hefur gefið út tvennar bækur í seríunni Empires of EVE sem fjallar um sögu leikheimsins.

 

(e.) ensku orðin í svigunum: Samtal um tölvuleiki og tölvuleikjaiðnaðinn fer að mestu fram á ensku og oft á tíðum er vöntun á íslenskum heitum yfir fyrirbæri innan iðnaðarins eða þekking á þeim ónóg. Við gerum okkar allra besta við að fylgja íslenskri málstefnu og í viðleitni við að uppfylla það markmið að íslenskt mál megi nota á öllum sviðum íslensks þjóðlífs notumst eftir fremsta megni við íslensk heiti fyrirbæra í hugbúnaðariðnaði. Þessari viðleitni til stuðnings látum við svo ensk heiti fylgja í merktum sviga sem lesendur geta nýtt sér til skýringar og glöggvunar. Gleðilegan dag íslenskrar tungu!