Fara í efni

Verðlaunaafhending við lok samstarfsverkefnis CCP og MÁ

Í dag lauk samstarfsverkefni CCP við nemendur í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú með verðlaunaafhendingu fyrir sex mismunandi matsþætti í leikjum nemenda. Þátttakendurnir í verkefninu eru á þriðju önn í stúdentsnámi sínu og hafa því fengið eins og hálfs árs þjálfun í því að hanna og byggja upp tölvuleiki. Í sérhæfingunni í námi sínu þjálfast nemendur í teymisvinnu, verkefnisstjórn og einnig því að kynna vinnu sína fyrir sérfræðingum á raunhæfan hátt (jafnvel á tímum hamlandi farsóttaraðgerða).

Sérfræðingar CCP eru ekki mættir til samstarfs til þess eins að hafa gaman, þau rýna vinnu nemenda og gefa þeim endurgjöf sem er bæði til þess fallin að nemendur bæti vöruna sem þeir eru að hanna auk þess að nemendur fá innsýn í það hvaða þættir skipta máli í tölvuleikjaiðnaðinum. Samhliða þessu þjálfa þau víðtæka færni í tölvuleikjagerð og til þess að byggja upp leikina er notuð leikjavélin Unity. Þegar leikjunum hefur verið skilað er endaafurðin rýnd, á sjálfsögðu á þann hátt sem til þess er best fallinn – með því að spila leikina.

Sérfræðingar CCP hrósuðu nemendum fyrir vel unnin störf í lok verkefnisins og báru þeim kveðjuna að það hefði verið ánægjulegt að spila leikina þeirra. Hóparnir sem fengu sérstaka viðurkenningu fyrir sínar afurðir voru:

Frumlegasta hönnunin

Happy Farmer

Aron og Viktoría

Besti söguþráðurinn

Red Circus

Ágúst, Mikki og Ingimar

Bestu leiðbeiningarnar

Cardiovascular Spy

Stubbur, Styrmir og Saulius

Besta heildar upplifunin

Happy Farmer

Aron og Viktoría

Bestu meme-in

CCP RPG

Hrafnkell, Hrefna og Jón Ingi

Skemmtilegasti leikurinn

Blown’up

Lovísa og Stefán Ingi


Nemendur fengu nýja endurútgáfu af Hættuspilinu að gjöf frá CCP og hettupeysu merkta MÁ frá skólanum í viðurkenningarskyni. Þess ber að geta að CCP þróaði og seldi Hættuspilið fyrir 20 árum sem liður í fjármögnun við stofnun fyrirtækisins.

Jólafrí er nú handan hornsins í nemendahópnum, en ný ævintýri eru skammt undan því næsta samstarfsverkefni nemenda á vorönn 2021 er samstarf við Solid Clouds.