Fara í efni

Lið MÁ áberandi í úrslitakeppni Ungra frumkvöðla

Anna Albertsdóttir, kennari í frumkvöðlafræðum við Menntaskólann á Ásbrú
Anna Albertsdóttir, kennari í frumkvöðlafræðum við Menntaskólann á Ásbrú
Tvö lið frá Menntaskólanum á Ásbrú eru komin í úrslitakeppni Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem haldin er árlega á vegum samtakanna Ungir Frumkvöðlar á Íslandi. Viðurkenninga- og verðlaunaafhending keppninnar fer fram mánudaginn 17. maí næstkomandi.


Lilja Dögg Alfreðsdóttir Mennta- og menningarmálaráðherra mun afhenda verðlaunin.

 
Í Fyrirtækjasmiðjunni stofna nemendur og reka eigið fyrirtæki auk þess að vinna að viðskiptahugmynd á 13 vikna námskeiði sem miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Þátttakendur fjármagna stofnun fyrirtækis með sölu hlutabréfa, ráða í stöðugildi og búa til ítarlega viðskiptaáætlun sem er hrint í framkvæmd og taka þátt í vörusýningu að því loknu. Fyrirtækið að lokum gert upp með ársreikningi og skýrslu í lok tímabilsins.
 
Alls voru tuttugu keppnislið frá níu framhaldsskólum valin í lokaumferð keppninnar og eins og áður kom fram voru tvö þeirra frá Menntaskólanum á Ásbrú, Báru Bræður með hugmyndina um Báruskaftið og Black Sky Games með leikinn Total Chaos. Keppnisliðin unnu verkefninin í tengslum við frumkvöðlaáfanga sem er hluti af námi til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð við skólann.
 
Fjölbreytt nám sem tengist meira en tölvuleikjagerð
 
Menntaskólinn á Ásbrú býður upp á nám til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð. En þó svo að megin stefið sé á gerð tölvuleikja, er námið fjölbreytt og höfðar til einstaklinga sem hafa áhuga á að virkja hugmyndaauðgi og sköpunargleði í framtíðar námi og störfum. Það er í þessu samhengi sem áfanginn í frumkvöðlafræðum er mikilvægur hluti námsins.
 
Þetta er frumraun MÁ í keppni Ungra frumkvöðla og hefur gengið framar vonum, segir Anna Albertsdóttir, kennari við Menntaskólann á Ásbrú. „Frumkvöðlafræðin er áfangi sem æfir nemendur í nýsköpun og frábært tækifæri fyrir þau að fá að upplifa að sjá hugmynd lifna við setja hana á markað og frábær reynsla að fá að taka þátt í svona keppni. Nemendur taka áfanga í markaðsfræði á fyrsta ári sem undirbýr þau að einhverju leyti fyrir frumkvöðlafræðina en þau fá alveg frjálsar hendur með hugmyndavinnu í áfanganum og sjá algjörlega um ferlið sjálf.“
 
Samkvæmt Önnu er hún einungis á hliðarlínunni og leiðbeinir nemendum í keppninni. Þá sér hún til þess að þau geri góða viðskiptaáætlun áður en þau hrinda hugmyndinni í framkvæmd. „Það komu margar frábærar hugmyndir hjá okkur. MÁ er einn af þrettán framhaldsskólum sem tóku þátt í ár og voru alls 125 fyrirtæki stofnuð. Að ná tveimur fyrirtækjum inn í 20 liða úrslit er ótrúlegur árangur hjá okkar fólki.“
 
Námið í Menntaskólanum á Ásbrú byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmið skólans er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.