Fara í efni

Samtök Iðnaðarins: Yfir 1000 stelpur taka þátt í Stelpum og tækni í dag

Stelpum úr 9. bekk er í dag boðið til viðburðarins Stelpur og tækni í sjötta sinn. Yfir 1000 stelpur úr 9. bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu heimsækja Háskólann í Reykjavík og fjölmörg tæknifyrirtæki í dag. Í gær var sami viðburður haldinn á Akureyri í samstarfi við Háskólann á Akureyri þar sem um 200 stelpur mættu. 

Viðburðurinn hefur farið stækkandi ár frá ári og verður nú fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Dagurinn er haldinn af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við Samtök iðnaðarins og SKÝ og tilgangurinn er að kynna möguleika í tækninámi og tæknistörfum fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tækni og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða.

Stelpurnar taka þátt í fjölbreyttum vinnustofum í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR og kennara við tæknisvið. Einnig hafa verið skipulagðar vinnustofur í samvinnu við Tækniskólann, Menntaskólann á Ásbrú, Forritunarkeppni Framhaldsskólanna, Fagkonur, Myrkur, Landsnet og Syndis. Viðfangsefnin eru af ólíkum toga, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu, vefhönnun, uppbyggingu tölvuleikja, tölvutætingi og Sonic Pi forritun.

Eftir að vinnustofunum lýkur heimsækja stelpurnar fjölbreytt tæknifyrirtæki þar sem konur sem starfa hjá fyrirtækjunum gefa stelpunum innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem taka þátt í ár eru: Activity Stream, Advania, Arion banki hf, CCP, Creditinfo, EFLA, Íslandsbanki, Kolibri, Krónan, Landsbankinn hf., Landsnet, Landsvirkjun, LS Retail ehf, Mannvit, Marel, Meniga, Microsoft á Íslandi, Nova, Opin Kerfi, Origo, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög, RB, Sendiráðið, Sensa, Síminn, Sýn, Tempo, Valitor, Wise lausnir og Össur.

Dagurinn er haldinn að fyrirmynd Girls in ICT Day sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna.

Lesa fréttina