Fara í efni

Fréttablaðið: Tölvuleikjaiðnaðurinn er stór

Ágúst Máni Jóelsson er á öðru ári á tölvuleikjabraut Menntaskólans á Ásbrú. Ágúst Máni frétti af náminu á YouTube en hann dreymir um að vinna við að skrifa söguheim tölvuleikja í framtíðinni.

Ágúst Máni frétti fyrst af náminu á Ásbrú þegar hann sá auglýsingu á YouTube. Hann hugsaði strax að þetta væri námið fyrir hann.

 „Það var svolítið fyndið að ég var nýbúinn að horfa á þætti á Netflix sem heita Video Game High School (á íslensku: Tölvuleikjamenntaskólinn). Þá sé ég þessa auglýsingu strax á eftir, um að það væri kominn tölvuleikjamenntaskóli á Íslandi. Ég hugsaði strax: Já ég er að fara í þetta nám,“ segir hann.

Ágúst Máni er á öðru ári í náminu og er ótrúlega ánægður með það að eigin sögn. „Við erum fyrsti árgangurinn á þessari braut og útskrifumst með stúdentspróf í tölvuleikjagerð. Við eigum eitt og hálft ár eftir af náminu en það tekur þrjú ár,“ segir hann.

„Þetta er ótrúlega gott nám. Það gefur manni hugmynd að því hvað maður gæti viljað vinna við í framtíðinni tengt tölvuleikjum. Miðað við hvað aðrir skólar hafa upp á að bjóða þá finnst mér þessi sýna manni svo miklu fleiri möguleika um hvað er hægt að gera í framtíðinni. Maður fær grunnþekkingu og kunnáttu í svo mörgu. Við lærum eiginlega um allt sem hægt er að vinna við í tölvuleikjaheiminum. Þú getur verið forritari, þrívíddarteiknari og margt fleira.“

Ágúst Máni sér fyrir sér að hann muni vinna við að skrifa sögur fyrir tölvuleiki og skapa heiminn í tölvuleikjum í framtíðinni en í skólanum fá nemendurnir tækifæri til að búa til leiki og skapa söguheim.

„Við getum gert alls kyns tilraunir til að búa til söguþræði og umhverfi og höfum fengið margar flottar hugmyndir,“ segir hann.

Fær innsýn í svo margt

Aðspurður að því hvort eitthvað í náminu hafi komið honum á óvart og hafi vakið sérstakan áhuga hans svarar hann að námið hafi í raun vakið áhuga hans á öllu sem tengist því að búa til tölvuleiki.

„Maður fær svo mikla innsýn í allt í tölvuleikjaiðnaðinum. Það eru margar brautir sem hægt er að fara innan þessa heims. Þetta er allt mjög fjölbreytt og áhugavert,“ segir Ágúst Máni.

Ágúst Máni segir að góður andi ríki í skólanum og að allir krakkarnir séu miklir vinir.

„Það er mjög mikið af hópverkefnum svo við kynnumst hvert öðru mjög vel og við kynnumst áhugamálum hvers annars. Við erum að búa til tölvuleiki saman svo við tengjumst öll mjög vel,“ segir hann.

„Ég mæli eindregið með þessu námi. Þetta er fyrir alla, hvort sem þú spilar tölvuleiki eða ekki. Þetta er öðruvísi nám sem hentar öllum. Þú þarft ekki að vera einhver svaka dúx í grunnskóla. Öllum getur gengið vel í þessu námi af því fólkið í skólanum vill virkilega að þú náir því og allir vilja hjálpa þér. Þótt það sé auðvitað sett mikil ábyrgð á þig. En þó þú þurfir að taka ábyrgð á náminu þínu þá eru verkefnin svo skemmtilegt. Þau ýta virkilega undir að þú skapir eitthvað flott.“

Þegar Ágúst Máni er spurður hvort hann sjái þá ekki eftir að hafa farið í námið segir hann hlæjandi. „Nei alls ekki, þetta er án vafa besti menntaskólinn á Íslandi.“

Lesa greinina í blaðinu