Fara í efni

Menntaskólinn á Ásbrú stígur varkár skref aftur til staðnáms

Nemendur á fyrsta ári á Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð hafa verið boðaðir aftur í staðnám á Ásbrú á mánudag til fimmtudags í næstu viku. Nemendur á öðru ári munu stunda nám í fjarnámsaðstæðum enn sem komið er.

Á meðan núverandi reglur eru í gildi verður nýnemahópnum skipt í þrennt svo virða megi tveggja metra reglu í vinnuaðstöðu nemenda og fjöldi í rými fari ekki yfir tíu manns. Grímuskyldu verður haldið til streitu við aðstæður þar sem ekki er hægt að uppfylla tveggja metra fjarlægðarmörk og í öllum sameiginlegum rýmum s.s. göngum og við innganga. Grímur standa ávallt til boða við innganga á Ásbrú og við innganga kennslustofa.

Mötuneytið mun opna að nýju og starfa samkvæmt gildandi ákvæðum um fjölda- og nálægðartakmarkanir. Undantekning er gerð á vanalegum reglum og nemendum gert heimilt að matast í kennslustofum, með þeim fyrirvara að þau gæti að hreinlæti m.t.t. umbúða og afganga.

Ákvörðunin er tekin með áherslu menntamálaráðuneytisins á staðnám hjá nýnemahópi að leiðarljósi og studd af því að núverandi bylgja faraldursins er í rénun. Eftir sem áður leggjum við ríka áherslu á persónulegar sóttvarnir s.s. sótthreinsun og handþvott ásamt því að tryggja gott loftflæði í kennslustofum yfir daginn.