Fara í efni

Hvernig skóli er Menntaskólinn á Ásbrú?

Í Menntaskólanum á Ásbrú er boðið uppá tvær námsbrautir til stúdentsprófs. Annars vegar er boðið uppá nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð og hins vegar opna stúdentsbraut. Brautirnar veita breiðan grunn til framhaldsnáms á háskólastigi með færni til framtíðar að leiðarljósi. Á báðum brautunum gefst nemendum kostur á að leggja sínar eigin áherslur með valgreinum. Námsráðgjafar eru nemendum innan handar og leiðbeina þeim allan námsferilinn.

Einnig býður skólinn uppá fjarnámshlaðborð með áföngum á framhaldsskólastigi sem hver sem er getur tekið í fjarnámi óháð stað og stund. Þeir áfangar eru ekki tengdir stúdentsbrautinni.

Stúdentsbrautin í tölvuleikjagerð er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið. Á sama tíma og lögð er áhersla á að byggja upp þekkingu og færni í ákveðnum námsgreinum, er ekki síður áhersla á að nemendur tileinki sér fagleg vinnubrögð og vinnusemi sem svarar kalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Þannig er mikilvægt að geta unnið sjálfstætt, en ekki síður að hafa færni til að vinna með öðrum.

Stúdentsbrautin í tölvuleikjagerð inniheldur hefðbundinn kjarna með grunnfögum á borð við íslensku, ensku og stærðfræði, en einnig sérhæfðari fög sem nýtast í tölvuleikjagerð og öðrum skapandi greinum á borð við hönnun, hljóðvinnslu, verkefnastjórnun og fleira. Í því skyni taka nemendur áfanga í tölvuleikjagerð, forritun, margmiðlun, heimspeki, listgreinum, frumkvöðlafræði og markaðsfræði svo eitthvað sé nefnt.

Tölvuleikjagerð hefur vaxið mjög hratt á Íslandi undanfarin ár og hefur skortur verið á vel menntuðu starfsfólki í greininni. Menntaskólinn á Ásbrú hefur frá upphafi haft náin tengsl við fyrirtæki á þessu sviði og einnig við Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI). Skólinn hefur fengið mikinn stuðning og ráðgjöf frá samstarfsfyrirtækjum m.a. í gegnum hin ýmsu samstarfsverkefni.

Opna stúdentsbrautin inniheldur einnig hefðbundinn kjarna með grunnfögum á borð við íslensku, ensku, stærðfræði, dönsku og heilsuáfanga. Nemendur á opinni braut velja síðan í samráði við námsráðgjafa kjarnagreinar og valáfanga sem mega vera af ýmsu tagi ásamt þriðja tungumálinu sem er spænska í MÁ.

Í Menntaskólanum eins og öðrum deildum Keilis er unnið út frá hugmyndafræði sem kallast vendinám. Í því fyrirkomulagi er tími nemandans með kennaranum nýttur á áhrifaríkan hátt fyrir leiðsögn og aðstoð við úrlausn verkefna, fremur en að hlusta á langa fyrirlestra í kennslustofunni. Það kallar jafnframt á breytta nálgun við skipulag námsins eins og stundatöflur, námsefni, námsmat og útfærslu á kennslustofum og öðrum rýmum skólans.

MÁ hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrsti nemendahópurinn hóf nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Nokkru fyrr hafði Keilir farið af stað með opna framhaldsskólaáfanga á Fjarnámshlaðborði sem svo voru færðir undir hatt menntaskólans. Skólinn er ein af þremur meginstoðum Keilis ásamt Háskólabrú og Heilsuakademíu.