Fara í efni

Yfir þúsund stelpur tóku þátt í Stelpum og tækni

Yfir eitt þúsund stelpur úr 9. bekk grunnskóla tóku í liðinni viku þátt í viðburðinum „Stelpur og tækni“ sem var haldinn í sjötta sinn í Háskólanum í Reykjavík.

Keilir tók í fyrsta skiptið þátt í þessum degi og stóð fyrir vinnustofu um tölvuleikjagerð sem boðið er upp á í Menntaskólanum á Ásbrú. Á annað hundrað stelpur úr fjórum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu (Hagaskóla, Lágafellsskóla, Lækjarskóla og Álfhólsskóla) tóku þátt í vinnustofunni sem nefndist Komdu í karkater.

Verkefnið sem Menntaskólinn á Ásbrú stóð fyrir snérist um karaktersköpun fyrir tölvuleik. Vinnan var blanda af skapandi hugmyndavinnu, persónuleikapælingum og að leysa úr óvæntum hindrunum. Þátttakendur unnu í teymi, líkt og gert er í tölvuleikjabransanum, með tilheyrandi þankahríð og verkefnastýrðu vinnuskipulagi.

Teymin fengu öll grunn sem byggja þurfti á, en verkefnið snéri síðan að því að búa til karakter, hugleiða áhrif persónueinkenna á viðbrögð karaktersins og byggja upp sögulínu þar sem tillit er tekið til þessara einkenna. Unnið var með samræður, þankahríð, skipulagssnilli, persónuleikapróf, leyst úr óvæntum breytum, hugarkort, litir og ýmist föndur einnig notað við úrlausn. 

Það er óhætt að segja að afrakstur vinnustofunnar hafi verið framar öllum væntingum eins og myndirnar hér að neðan sýna.

Viðburðurinn fjölmennari en nokkru sinni fyrr

Stelpur og tækni hefur farið stækkandi ár frá ári og var fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Dagurinn, sem er haldinn af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við Samtök iðnaðarins og SKÝ, hefur þann tilgang að kynna möguleika í tækninámi og tæknistörfum fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tækni og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða.

Stelpurnar tóku þátt í fjölbreyttum vinnustofum í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR og kennara við tæknisvið. Auk þess voru skipulagðar vinnustofur í samvinnu við Tækniskólann, Menntaskólann á Ásbrú, Forritunarkeppni Framhaldsskólanna, Fagkonur, Myrkur, Landsnet og Syndis. Viðfangsefnin eru af ólíkum toga, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu, vefhönnun, uppbyggingu tölvuleikja, tölvutætingi og Sonic Pi forritun.

Eftir að vinnustofunum lauk heimsóttu stelpurnar fjölbreytt tæknifyrirtæki þar sem konur sem starfa hjá fyrirtækjunum gáfu þeim innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í ár eru: Activity Stream, Advania, Arion banki hf, CCP, Creditinfo, EFLA, Íslandsbanki, Kolibri, Krónan, Landsbankinn hf., Landsnet, Landsvirkjun, LS Retail ehf, Mannvit, Marel, Meniga, Microsoft á Íslandi, Nova, Opin Kerfi, Origo, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög, RB, Sendiráðið, Sensa, Síminn, Sýn, Tempo, Valitor, Wise lausnir og Össur.

Dagurinn er haldinn að fyrirmynd Girls in ICT Day sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna.

Fréttin er fengin frá vef Samtaka iðnaðarins.