Fara í efni

Upplýsingar til nemenda Menntaskólans á Ásbrú vegna samkomubanns

Engin kennsla mun fara fram í húsnæði Keilis frá og með mánudeginum 16. mars til og með mánudagsins 13. apríl að öllu óbreyttu. Húsnæðið verður með öllu lokað fyrir nemendur og starfsemi innandyra verður í lágmarki.

Starfsfólk mun þó sinna allri þeirri vinnu sem þarf til að halda skólastarfi gangandi og nemendur MÁ munu sinna öllu sínu námi í fjarnámi. Við stefnum ótrauð að því að engin töf verði á verkefnum og vinnu annarinnar þrátt fyrir þessa breytingu á starfsháttum.

Námsráðgjafar hafa haldið fundi með nemendum MÁ þar sem farið var meðal annars yfir að skólastarfið yrði að mestu leyti með óbreyttu sniði þrátt fyrir þessa lokun. Það þýðir að nemendur eru með sömu stundatöflu, sömu verkefni, virka mætingaskyldu, o.s.frv. Það eina sem breytist er að í stað þess að nemendur séu staðsettir á Ásbrú í kennslustundum þá verða þeir staddir heima hjá sér.

Þá var ítrekað að þessar breytingar myndu gera auknar kröfur til þeirra hvað varðar sjálfstæð vinnubrögð og að þau þurfi að vera mjög virk og móttækileg í rafrænum samskiptum – bæði við samnemendur og kennara gegnum Discord og í tölvupósti.

Stundatöflur gilda líkt og áður og kennarar verða til taks samkvæmt þeim og munu jafnvel óska eftir því að hitta á nemendur á þeim tíma sem kennslustund er virk. 

Kennarar hafa undanfarna daga sinnt undirbúningi með það í huga að færa námið yfir í fjarnám og í þeim tilvikum þar sem gera þarf breytingar á áfanganum mun kennarinn kynna það sérstaklega. Nemendur eru hvattir til að nýta þær rafrænu þjónustuleiðir sem við höfum svo sem vefsíðu, tölvupóst, Moodle og Discord. Á þessum tímum er jafnvel enn meiri ástæða til að nýta sér þjónustu námsráðgjafa - Þóra (thora@keilir.net) og Skúli (skuli.b@keilir.net).  

Gangi ykkur sem allra best og ef það vakna einhverjar spurningar þá ekki hika við að hafa samband.

Nanna Kristjana Traustadóttir,
Skólameistari Menntaskólans á Ásbrú