Fara í efni

Stærðfræðigrunnur - Undirbúningsnámskeið

Stærðfræðigrunnur er hugsaður sem þjálfunaráfangi og er sniðinn að þörfum þeirra sem vantar upp á grunninn til að geta hafið stærðfræðinám. Hann hentar því öllum þeim sem óska eftir upprifjun eða aukaefni í stærðfræði.

Fyrir þennan áfanga fást engar einingar, ekkert beint aðgengi er að kennara og ekkert formlegt námsmat, ólíkt öðrum áföngum Hlaðborðsins.

Stærðfræðigrunnurinn fer að öllu leyti fram á netinu og er undurbúningsnámskeiðið sett þannig upp að hver og einn nemandi geti tileinkað sér á sjálfstæðan hátt efni áfangans, á þeim tíma sem þeim hentar og án afskipta kennara. Öll verkefni verða gagnvirk og einungis til þess hugsuð að nemandinn geti æft sig í námsefninu og kannað sjálfur þekkingu sína með gagnvirkum prófum sem fylgja áfanganum. Hvert námskeið er sett upp sem fimm vikna námsáætlun, þó hver og einn vinni það á sínum hraða.

Áhersluþættir undirbúningsnámskeiðsins

Aðalatriði stærðfræðinnar rifjuð upp og grunnurinn styrktur fyrir frekara stærðfræðinám. Þau atriði sem farið verður yfir eru: 

  • Prósentur og almenn brot
  • Algebra, margliður, jöfnur, þáttun
  • Hnitakerfið, gerð gildistöflu og jafna beinnar línu

Í tengslum við hvert atriði eru fyrirlestrar, dæmi og æfingar. 
Þar að auki verða upplýsingar um aukaefni fyrir þá sem vilja ná betri tökum á efninu hverju sinni.

Verðskrá og skráning

Stærðfræðigrunnurinn kostar 10.000 kr. og fer skráning fram á Innu. Hægt er að greiða bæði með kredit- og debetkorti.  Nemendur hafa fjóra mánuði til að ljúka námskeiðinu, frá því þeir skrá sig inn á Moodle.

Hafa samband

Nánari upplýsingar um undirbúningsnámskeið í stærðfræði veitir fulltrúi Menntaskólans á Ásbrú á hladbord@keilir.net