Fara í efni

Nemendur hanna tölvuleiki fyrir Keflavíkurflugvöll

Leikir nemenda frá haustönn
Leikir nemenda frá haustönn

Á vorönn 2019 munu nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú vinna að samstarfsverkefni með Isavia. Munu þeir hanna og gera tölvuleiki fyrir yngstu kynslóð farþega sem getur spilað þá á meðan bið stendur á Keflavíkurflugvelli.

Í vinnuferlinu munu nemendur kynna hugmyndir sínar fyrir fulltrúum Isavia ásamt því að rýna í vinnuferli eftir leiðbeiningum kennara sinna. Verkefnið er hluti af tölvuleikjagerðaráfanga annarinnar, en sérstök áhersla er lögð á samstarf við aðila úr atvinnulífinu í sérhæfingu nemenda við Menntaskólann á Ásbrú.

Upphaflega stóð til að nemendur myndu fá ítarlega kynningu á samstarfsverkefninu eftir heimsókn til Isavia í byrjun apríl. Kynningarferlið verður þó endurskoðað m.t.t. hvaða möguleikar eru í stöðunni vegna aðgerða í kjölfar heimsfaraldursins sem nú geysar og snertir líf allra landsmanna.

„Við Menntaskólann á Ásbrú starfa afar nútímalega þenkjandi kennarar, sem voru fljótir að aðlaga og gera breytingar á sínum áföngum þegar ljóst var í hvað stefndi hjá yfirvöldum. Nemendur okkar hafa ekki misst úr svo mikið sem eina sekúndu í sínu námi og við erum þó ég segi sjálf frá ansi lausnamiðuð gagnvart þeim málum sem koma upp. Nú er bara í stöðunni að skoða það með Isavia hvernig nemendur fá að kynnast starfseminni og fá tilfinningu fyrir Isavia menningunni án þess að geta mætt á staðinn.“ útskýrir Nanna Kristjana skólameistari Menntaskólans á Ásbrú.

„Afeinangrun kennslustofunnar er mikilvægur liður í námi við Menntaskólann. Við viljum setja upp áhugavekjandi, raunhæf verkefni eins mikið og hægt er á öllum námsferlinum. Nemendur eru að sérhæfa sig í tölvuleikjagerð og fá hjá okkur einstakt tækifæri til þess að vinna verkefni með fyrirtækjum. Það eru líka einhverjir töfrar sem eiga sér stað þegar nemandi fær tækifæri til þess að fá endurgjöf á vinnuna sína frá sérfræðingum í atvinnulífinu, það er allt of sjaldgæft, jafnvel á háskólastigi.“ segir skólameistarinn og bætir við „Við erum að sjálfsögðu að undirbúa mörg samstarfsverkefni í tölvuleikjagerðinni, eða eitt fyrir hverja önn í náminu. Næsta vetur mun þessi nemendahópur t.a.m. vinna verkefni með CCP og Myrkur Games. Í þeim verkefnum eru áherslur öðruvísi, meiri fókus á tiltekna faglega þætti. Engu að síður svipað ferli, nemendur fá tækifæri á beinum samskiptum við sérfræðinga í atvinnulífinu.“

Andri Örn Víðisson, Portfolio Manager hjá Isavia, tekur undir mikilvægi þess að atvinnulífið tengist nemendaverkefnum á ýmsum námsstigum. „Við leggjum mikið upp úr því að vinna með nærsamfélaginu og teljum mikilvægt að hafa öfluga skóla í umhverfinu sem skila af sér hæfu starfsfólki til framtíðar. Hjá Isavia, og á Keflavíkurflugvelli almennt, eru fjölbreytt störf sem krefjast fjölbreyttrar menntunar og þekkingar. Stúdentspróf í tölvuleikjagerð getur verið góður grunnur að byggja á í þeim efnum. Þegar við fengum þá hugmynd að gera tölvuleik fyrir yngstu gestina okkar í flugstöðina datt okkur strax í hug að leita til Menntaskólans á Ásbrú eftir samstarfi og vonandi verður þetta aðeins fyrsta verkefni í lengra samstarfi.“

Í maí næstkomandi munu nemendur sjálfir sýna tölvuleikina sem þeir búa til í þessu samstarfsverkefni, svo fremi sem aðstæður leyfa. Stefnt er að því að gera það á opnu húsi við Menntaskólann á Ásbrú þar sem starfsfólk veitir upplýsingar um stúdentsbraut í tölvuleikagerð og fyrirtæki í bransanum mæta og kynna störf sín. „Það verður sannkölluð uppskeruhátíð. Það er mikill hugur í nemendahópnum og þau eiga fyllilega skilið að fá að fagna áfanganum með almennilegri sýningu.“ segir skólameistari að lokum og bendir á að nánari upplýsingar um opið hús verði birtar á miðlum MÁ og Keilis eftir páska.