Fara í efni

RÚV: Ný námsleið með áherslu á tölvuleikjagerð

Menntamálaráðuneytið hefur heimilað Keili að fara af stað með nýja námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð. Að búa til nýjan tölvuleik er að búa til nýjan heim segir Nanna Traustadóttir, umsjónarkona með náminu. 
 

Hún segir að farið verði eftir aðalnámskrá framhaldsskólanna. Námið hafi verið í undirbúningi í nokkur ár og taki mið af sambærilegu námi erlendis. Um 40 manns geti sótt námið til að byrja með. Hún segir tölvuleikjageirann vera risastóran og það verði mikil þörf í framtíðinni eftir fólki sem geti unnið við tölvuleikjagerð. 

Nanna segir meira á bak við tölvuleikinn en marga grunar. „Þegar að tölvuleikur er búinn til þá er í raun og veru verið að búa til nýjan heim. Þá erum við að tala um sögu, leikgerð, persónur, jafnvel gríðarlega mikil vinna á bak við hverja persónu, við erum að tala um ýmis konar tölvuúrvinnslu, ekki bara forritun en að sjálfsögðu líka forritun.“

Lesa frétt