Fara í efni

Nýjung í Menntaskólanum á Ásbrú – Opin braut til stúdentprófs

Menntaskólinn á Ásbrú eykur námsframboð og bætir við Opinni braut til stúdentprófs. Nemendur geta nú valið um tvær námsbrautir: Opna braut til stúdentprófs og Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Opið er fyrir umsóknir - sjá nánar á vef MÁ. Nemendur sem eru að útskrifast úr 10.bekk vor 2023 sækja um skólavist á vef Menntamálastofnunar með veflykli sem þeir fá afhentan í grunnskóla sínum. Nemendur sem eru 17 ára og eldri sækja um með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð byggir á hagnýtum verkefnum með tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmið okkar er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.

Opinni braut til stúdentsprófs er ætlað að veita nemendum undirbúning undir nám í ýmsum deildum háskóla. Nemandi setur sjálfur saman stúdentspróf sitt og hefur þannig tækifæri til að setja saman námsbraut sem samræmist hans áhugasviði eða áformum um áframhaldandi nám. Nemandinn tekur sömu kjarnafög og nemendur á öðrum brautum MÁ þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa.