Fara í efni

Nemendur MÁ gefa út eigin tölvuleik

Þeir Halldór Björnsson, Mantvilas Savosto og Nedas Stanisauskas, nemendur MÁ á þriðja ári hafa gefið út eigin tölvuleik á Steam, einni vinsælustu leikjaveitu heims.

Leikurinn ber heitið Project R4T og í honum bregður maður sér í hlutverk einstaklings á tilraunastofu sem prófar tæki sem gerir honum kleift að minnka sig og stækka eftir þörfum. Að sögn þeirra félaga dregur leikurinn mikinn innblástur frá hinum geysivinsælu Portal leikjum.

Í leiknum sjálfum á spilarinn að fara í gegnum alls konar þrautir sem snúast um að prófa áðurnefnda minnkunar og stækkunar-tækni, til að mynda með því að minnka sig og stækka eftir þörfum til að komast í gegnum ákveðnar hindranir og svo framvegis.

Project R4T er unninn í Unity leikjavélinni, sem nemendur MÁ hafa lært að nota í tölvuleikjagerðaráfanga skólans en auk þess er kennt á fleiri vinsæl viðmót á borð við Unreal Engine.

Að sögn Mantvilas, betur þekktan sem Matt, var mikil áhersla lögð á að skipta niður verkefnum meðal þeirra félaga. Hver og einn fékk ákveðið viðfangsefni sem hentaði styrkleika hvers og eins. Þannig hannaði Matt sjálf borðin í leiknum, meðan Halldór sá um kóðunina og þrautirnar og Nedas gerði þrívíddarmódelin og hljóðið. „Þetta er allavega það sem við lærðum í skólanum - að skipta niður með okkur verkefnum þar sem við getum einbeitt okkur að því sem hver og einn gerir best,“ bætti Matt við.

Leikurinn hófst sem verkefni þremeninganna á svokölluðum Game Jam viðburði á vegum CCP. Á slíkum viðburðum kemur tölvuleikjagerðar fólk saman úr öllum áttum til að gera eigin tölvuleiki frá grunni.

„Fulltrúar CCP gáfu okkur mikið lof fyrir leikinn og sögðu okkur að hann væri á meðal þeirra betri sem urðu til á viðburðinum. Reyndar var einn aðili frá CCP sem hrósaði okkur sérstaklega fyrir þá snilldarhugmynd sem við fengum að hanna þrautirnar okkar á ákveðna vegu, sem var alveg óvart hjá okkur en í kjölfarið gerðum við það að algjöru lykilatriði við leikinn okkar.“

Þeir félagar hafa síðan unnið Project R4T enn frekar og nú gefið út á Steam.

Hægt er að sækja leikinn hér:

Skjáskot af leiknum: